Innlent

Börn leiki sér í læk með krabba­meins­valdandi efnum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Kópavogslækur rennur í Kópavogstjörn sem er rétt við voginn.
Kópavogslækur rennur í Kópavogstjörn sem er rétt við voginn. Vísir/Einar

Við mælingar í Kópavogslæk á árunum 2019 til 2020 mældust að minnsta kosti þrjú krabbameinsvaldandi efni yfir ársmeðaltali. Skýrsla um málið hefur ekki enn verið tekin fyrir hjá Umhverfisnefnd Kópavogsbæjar. 

Samkvæmt mælingum sem gerðar voru í Kópavogslæk frá nóvember 2019 til nóvember 2020 mátti finna átján efni sem skilgreind eru sem hættuleg, þrávirk og valda alvarlegri mengun eða eitrun í vatni og umhverfi. Svokölluð forgangsefni.

Magn sex þessara efna reyndist yfir ársmeðaltali. Þrjú þeirra eru krabbameinsvaldandi en eitt þeirra er skordýraeitur.

Magn þessara sex efna mældist yfir ársmeðaltali.Vísir/Hjalti

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kópavogslækur er í deiglunni vegna skaðlegra efna í vatninu. Til að mynda varð lækurinn grænn árið 2019 vegna byggingaframkvæmda í nágrenninu.

Kristín Sævarsdóttir, áheyrnarfulltrúi Samfylkingarinnar í umhverfis- og samgöngunefnd Kópavogs, segir skýrsluna ekki hafa verið kynnta fyrir nefndinni þrátt fyrir að hún hafi ítrekað óskað eftir því.

„Ég hef verið að biðja um að þessi skýrsla verði kynnt hjá okkur því ég frétti af henni fyrir tilviljun. Ég bað ekki um það nægilega formlega upphaflega, svo bað ég um það aftur og ég er búin að biðja um þetta þrisvar sinnum. Mér er tjáð að þetta verði skoðað þegar og ef ekkert annað er meira áríðandi og ræða. Þannig þau virðast ekki hafa mikinn áhuga,“ segir Kristín.

Hún krefst þess að fólk verði látið vita af hættunni sem stafar af læknum.

„Svo eru krakkar að sulla þarna og ég vil að Kópavogsbær auglýsi það að börn eigi ekki að sulla í læknum. Það er allt í lagi að leika sér í nágrenninu en ekki vera með fætur og hendur ofan í þessu ógeði,“ segir Kristín.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×