Umfjöllun: Tindastóll - Breiðablik 0-3 | Öruggur fyrsti sigur Blika

Hinrik Wöhler skrifar
Taylor Marie Ziemer skoraði tvö fyrir Blika í kvöld.
Taylor Marie Ziemer skoraði tvö fyrir Blika í kvöld. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Breiðablik sigraði nýliða Tindastóls örugglega á Sauðárkróki í kvöld í annarri umferð Bestu deildar kvenna. Leikurinn endaði 3-0 fyrir Breiðablik og voru þetta fyrstu stig liðsins í deildinni en þær þurftu að sætta sig við tap á móti Valskonum í fyrstu umferð. Þó að sigurinn hafi aldrei verið í hættu gáfu heimakonur þeim ágæta mótspyrnu og voru þær óheppnar að ná ekki að skora í kvöld.

Leikurinn fór af stað eins og við mátti búast, Tindastóll lá aftarlega á vellinum og vörðust á meðan Breiðablik sótti að krafti.

Stólarnir beittu skyndisóknum og reyndu að koma háum boltum á Murielle Tiernan í framlínu Tindastóls. Heimakonur fengu gott marktækifæri í upphafi leiks en þá fékk Hannah Jane Cade góða sendingu frá Murielle af hægri kantinum og skaut viðstöðulausi skoti af stuttu færi sem Telma Ívarsdóttir, markvörður Breiðabliks, varði frábærlega.

Breiðablik fékk frákastið og geystist upp völlinn þar sem Vigdís Lilja Kristjánsdóttir fékk boltann á hægri kantinum og fann Taylor Marie Ziemer rétt fyrir utan vítateiginn. Taylor tók boltann með sér og smellti honum neðarlega í hægra hornið, einkar snyrtileg afgreiðsla. Gestirnir komnir yfir eftir átta mínútna leik.

Heimakonur lögðu þó ekki árar í bát og vörðust ágætlega. Blikar fengu fá almennileg færi framan af fyrri hálfleik þrátt fyrir stífa pressu.

Breiðablik sótti mikið upp hægri vænginn í fyrri hálfleik og fékk Birta Georgsdóttir dauðafæri inn á markteig eftir fyrirgjöf frá hægri en Monica Wilhelm, markvörður Tindastóls, varði vel frá henni.

Á 42. mínútu fengu gestirnir innkast hægra megin á vellinum. Ásta Eir Árnadóttir tók innkastið og gaf á Taylor Marie Ziemer sem ákveður að negla boltanum af um það bil 30 metra færi. Taylor nær hnitmiðuðu skoti sem endaði í samskeytunum og var óverjandi fyrir Monicu í marki Tindastóls, mark sem á skilið tilnefningu fyrir mark tímabilsins.

Gestirnir fóru með tveggja marka forskot í hálfleik, þökk sé frábæru einstaklingsframtaki frá Taylor Marie.

Fyrstu fimmtán mínútur síðari hálfleiks var eign Breiðabliks, þær unnu boltann hátt upp á vellinum en náðu þó ekki að skapa sér nein dauðafæri og áttu mörg skot fyrir utan vítateig Tindastóls sem Monica varði eða endaði framhjá markinu.

Stólarnir fundu betri takt eftir rúmlega klukkutíma leik en Telma Ívarsdóttir varði aftur vel frá Murielle Tiernan á 65. mínútu. Murielle komst í ágætis færi vinstra megin í markteignum eftir góða sendingu inn fyrir vörn Breiðabliks.

Á 79. mínútu gerðu gestirnir tvöfalda breytingu en inn komu Hafrún Rakel Halldórsdóttir og Andrea Rut Bjarnadóttir. Þær voru ekki lengi að láta á sér kveða en á 85. mínútu lék Hafrún á varnarmenn Tindastóls úti hægra megin og kom með lága sendingu inn í teiginn á Andreu Rut. Eftir stutta baráttu við varnarmenn Tindastóls náði Andrea að koma boltanum í netið, undir Monicu í markinu.

Staðan orðin 3-0 fyrir Breiðablik og urðu það lokatölur á Sauðárkróki í kvöld. Breiðablik komnar á blað en Tindastóll enn með eitt stig og hafa ekki náð að skora mark í fyrstu tveimur leikjunum.

Af hverju vann Breiðablik?

Einstaklingsgæði í fyrstu tveimur mörkunum hjá Taylor Marie gerði gæfumuninn fyrir gestina. Eins og við mátti búast var það of stórt verkefni fyrir Tindastól að koma til baka eftir það. Heimakonur fengu sín færi en Telma Ívarsdóttir sá við þeim í öll skiptin.

Hverjar stóðu upp úr?

Títtnefnd Taylor Marie Ziemer átti frábæran leik og skoraði tvö lagleg mörk. Hún var ekki langt frá því að bæta því þriðja við í seinni hálfleik og var sífellt ógnandi.

Telma Ívarsdóttir, markvörður Breiðabliks, kom sínum liðsfélögum til bjargar þegar vörn Breiðabliks opnaðist. Heimakonur komust tvívegis einar í gegn en hún sá við þeim í bæði skiptin.

Hvað gekk illa?

Nýliðarnir frá Sauðárkróki fengu sín færi og hefðu hæglega getað skorað í leiknum. Þær fengu þó nokkrar hornspyrnur og önnur föst leikatriði sem kom ekkert út úr, eitthvað sem nýliðarnir verða að nýta ef þær ætla að halda sér uppi í sumar.

Hvað gerist næst?

Stólarnir fá þriðja heimaleikinn í röð en FH mætir í Skagafjörðinn eftir viku. Hafnfirðingar eru án stiga og eru þetta liðin sem margir spá í fallbaráttu í sumar, klárlega sex stiga leikur fyrir liðin.

Þar sem það er verið að skipta um gras á Kópavogsvelli fær Breiðablik þriðja útileikinn í röð. Þær mæta liði Keflavíkur eftir viku í þriðju umferð Bestu deildar kvenna.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira