Tottenham mátti þola niðurlægjandi 6-1 tap gegn Newcastle síðastliðinn sunnudag og Son segir að leikmenn liðsins hafi nýtt sér þá niðurlægingu til að vinna sig aftur inn í leikinn gegn United í kvöld eftir að hafa lent 2-0 undir.
Tapið gegn Newcastle var raunar það slæmt að bráðabirgðastjórinn Cristian Stellini var rekinn eftir að hafa stýr liðinu í aðeins fjórum leikjum og liðsmenn Tottenham buðust til að endurgreiða þeim stuðningsmönnum sem keyptu sér miða á leikinn.
Það var Pedro Porro sem minnkaði muninn fyrir Tottenham gegn United í kvöld áður en Son jafnaði metin fyrir liðin rúmum tíu mínútum fyrir leikslok.
„Við vildum gefa allt sem við áttum í þennan leik og það er það sem við töluðum um inni í klefa,“ sagði Son að leik loknum.
„Við máttum ekki gefast upp. Við vorum virkilega reiðir og við áttum ekki skilið að vera 2-0 undir í hálfleik. Síðasta vika var óásættanleg og við vildum ekki endurtaka það. Okkur þykir virkilega fyrir frammistöðunni og úrslitunum og við vildum mæta með gott orkustig í kvöld.“
„Við kunnum virkilega að meta stuðningsmennina okkar og þeir börðust með okkur í kvöld,“ bætti Son við að lokum.