BBC greinir frá þessu en Moonbin fannst meðvitundarlaus af umboðsmanni sínum í íbúð í Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu, í gærkvöldi.
Að sögn lögreglunnar í borginni er talið að hann hafi svipt sig lífi. Suður-Kórea er með hæstu tíðnina hvað varðar sjálfsvíg ungmenna af þróuðum löndum.
Árið 2016 gekk Moonbin til liðs við K-pop strákabandið Astro en hann var þá átján ára gamall. Fyrir það hafði hann unnið sem leikari og fyrirsæta. Hann átti eftir að slá í gegn með hljómsveitinni, þá sérstaklega fyrir danshæfileika sína.
Síðustu misseri hafði hann sungið meira með einum öðrum meðlimi sveitarinnar, Sanha. Þeir voru á tónleikaferðalagi nýlega og spiluðu síðast í Bangkok í Taílandi þann 8. apríl síðastliðinn.