Innlent

Fjór­tán prósent grunn­skóla­nema með er­lent móður­mál

Bjarki Sigurðsson skrifar
Börn að leik á ærslabelg við Gerðasafn Kópavogi síðasta sumar.
Börn að leik á ærslabelg við Gerðasafn Kópavogi síðasta sumar. Vísir/Vilhelm

Fjórtán prósent nemenda í grunnskólum landsins hafa erlent móðurmál. Fjölgar þeim þó nokkuð milli ára. Algengasta erlenda móðurmálið er pólska. Aldrei hafa verið fleiri nemendur í skyldunámi á Íslandi.

Þetta kemur fram í nýjum gögnum Hagstofu Íslands. Nemendur í grunnskólum Íslands voru 47.115 talsins haustið 2022 og hafa aldrei verið fleiri. Þeim fjölgar um 256 frá haustinu 2021 eða um 0,5 prósent. 

Nemendum sem hafa erlent tungumál að móðurmáli hefur fjölgað ár frá ári. Haustið 2022 höfðu 6.570 grunnskólanemendur erlent tungumál að móðurmáli, eða 13,9% nemenda, sem er fjölgun um 760 nemendur frá árinu áður. Hluti þessara nemenda hefur einnig íslensku sem móðurmál. 

Algengasta erlenda móðurmál nemenda í grunnskólum á Íslandi er pólska, sem er töluð af tæplega 2.100 nemendum. Næst á eftir koma enska, arabíska, spænska og filippseysk mál en meira en þrjú hundruð börn tala þau tungumál. 

Nemendum með erlent ríkisfang fjölgaði einnig frá fyrra ári og voru 4.114 haustið 2022 og hafði fjölgað um 683 nemendur. Mest munar um að börnum frá Úkraínu fjölgaði um 203, börnum með pólskt ríkisfang fjölgaði um 107 og börnum frá Venesúela fjölgaði um 95. Nemendum með íslenskt ríkisfang fækkaði um 427 á milli áranna 2021 og 2022.

Grunnskólar á Íslandi eru 174 talsins. Í þremur grunnskólum eru færri en tíu nemendur, það eru Grunnskólinn í Hofgarði með þrjá nemendur, Grunnskóli Raufarhafnar með sex nemendur og Grunnskóli Drangsness þar sem eru sjö nemendur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×