Erlent

Musk tilbúinn að selja Twitter „réttum“ aðila

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Musk fór um víðan völl í viðtalinu við BBC.
Musk fór um víðan völl í viðtalinu við BBC. Getty/Michael Gonzalez

Elon Musk sagði að yfirtaka Twitter hafi verið „frekar sársaukafull“ og líkti rekstri miðilsins við „rússíbanareið“ í viðtali við BBC í morgun. Hann hafi einungis keypt Twitter af því dómari ætlaði að þvinga hann til þess og segist tilbúinn að selja hann ef réttur aðili hefur áhuga.

Viðtalið sem var skipulagt með stuttum fyrirvara fór fram í höfuðstöðvum Twitter í San Francisco. Meðal umræðuefna voru yfirtaka Musk á Twitter, rekstur samfélagsmiðilsins, uppsagnir á starfsmönnum og vanhugsuð tíst milljarðamæringsins. Viðtalið kemur degi eftir fréttir af því að Twitter væri ekki lengur hlutafélag.

Sér ekki eftir kaupunum

Aðspurður út í kaupin á Twitter og hvort hann sæi eftir þeim sagði Musk að „sársaukastig Twitter hafi verið gífurlega hátt“ en hann sjái ekki eftir kaupunum. Hins vegar sagðist hann vera að tilbúinn að selja miðilinn ef „réttur“ aðili sem eru tilbúnir að „leita uppi sannleikann“ hafa áhuga á að kaupa hann. 

Þá viðurkenndi hann að ástæðan fyrir því að hann keypti miðilinn á endanum hafi verið að bandarískur dómari ætlaði að þvinga hann til þess eftir að hann var búinn að leggja fram 44 milljarða dala kauptilboðið. Það er í fyrsta skiptið sem hann gengst við því.

Hann segir í viðtalinu að undanfarnir mánuðir hafi verið „heldur streituvaldandi“ og „ekki auðveldir“. Ferlið hafi allavega ekki verið leiðinlegt heldur „frekar mikil rússíbanareið“ og að vinnuálagið væri stundum það mikið að hann svæfi í skrifstofunni.

Þá viðurkennir Musk að hafa gert fjölda mistaka en segir að „allt sé gott sem endi vel“. Notkun Twitter hafi aukist og félagið stefni í rétta átt. Enn fremur segir hann að það styttist í að lausafjárstaða félagsins verði jákvæð innan nokkurra mánaða og að margir auglýsendur hafi snúið aftur.

Þegar hann var spurður út í misgáfuleg tíst viðurkenndi hann að hafa oft farið illa að ráði sínu. „Hef ég skotið sjálfan mig í fótinn með tístum mörgum sinnum? Já,“ sagði hann og bætti við „Ég held að ég ætti ekki að tísta eftir klukkan þrjú“ á næturnar.

Betra að reka þúsundir manna en að allir missi vinnuna

Musk var líka spurður út í hópuppsagnirnar sem Twitter réðist í eftir yfirtökuna. 

Hann viðurkenndi að það hafi verið krefjandi að fækka starfsmönnum úr tæplega 8.000 niður í um 1.500. Þá hafi þeim fylgt einhverjir tæknilegir örðugleikar en að síðan virkaði vel núna.

Aðspurður hvort uppsagnirnar hafi ekki verið ósanngjarnar vildi hann ekki meina að svo væri og sagði „ef allt skipið sekkur þá er enginn með vinnu“. Þá viðurkenndi hann að hafa sagt upp fjöld fólks í gegnum skjáinn enda „ómögulegt að tala við svo marga í persónu.“

Fjölmiðillinn BBC var líka til umræðu en það vakti mikla athygli nýverið þegar Twitter bætti við merkingu við Twitter-aðgang miðilsins þar sem honum er lýst sem „ríkisreknum fjölmiðli“. Í kjölfar harðra viðbragða var merkingunni breytt í „ríkisfjármagnaðan fjölmiðil“ og sagði Musk að þau vildu auðvitað vera nákvæm.

Þá sagðist hann bera mikla virðingu fyrir BBC og að viðtalið væri „gott tækifæri til að spyrja spurninga“ og fá viðbrögð við því sem mætti gera betur.


Tengdar fréttir

Twitter ekki lengur til sem hlutafélag

Twitter er ekki lengur til sem sjálfstætt hlutafélag eftir samruna þess við skúffufyrirtækið X Corp. Breytingin hefur vakið vangaveltur um framtíð samfélagsmiðilsins og hvað Elon Musk ætlar sér með hann.

Musk skiptir Twitter-fuglinum út fyrir Doge-hundinn

Elon Musk hefur skipt Twitter-fuglinum Larry út fyrir Doge-hundinn Kabosu. Hundurinn er ein frægasta skopmynd heims og stendur Musk nú í málaferlum vegna rafmyntar sem notast við sömu mynd af hundinum, Dogecoin. 

Frumkóða Twitter lekið á netið

Hluta af frumkóða Twitter var lekið á netið nýverið og leikur grunur á að þar hafi verið á ferðinni fyrrverandi starfsmaður sem auðjöfurinn Elon Musk rak. Kóðinn var birtur á GitHub en fjarlægður þaðan þegar lögmenn Twitter sendu forsvarsmönnum síðunnar bréf.

Vonast eftir nýjum for­stjóra Twitter fyrir árs­lok

Bandaríski auðjöfurinn Elon Musk, eigandi bílaframleiðandans Tesla og samfélagamiðilsins Twitter, segist vona að hann verði búinn að finna einhvern til að taka við forstjórastöðunni hjá Twitter fyrir árslok 2023.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×