Viðskipti erlent

Vonast eftir nýjum for­stjóra Twitter fyrir árs­lok

Atli Ísleifsson skrifar
Elon Musk ávarpaði World Government Summit í Dúbaí í morgun.
Elon Musk ávarpaði World Government Summit í Dúbaí í morgun. AP

Bandaríski auðjöfurinn Elon Musk, eigandi bílaframleiðandans Tesla og samfélagamiðilsins Twitter, segist vona að hann verði búinn að finna einhvern til að taka við forstjórastöðunni hjá Twitter fyrir árslok 2023.

Musk greindi frá þessu þegar hann ávarpaði ráðstefnu í Dubaí í gegnum fjarfundarbúnað í morgun.

Í frétt AP kemur fram að Musk hafi sagst munu þurfa að koma á auknum stöðugleika innan félagsins og tryggja fjárhagsstöðuna áður en nýr maður kæmi í brúna. Musk hefur gegnt forstjórastöðunni frá yfirtöku sinni á félaginu síðasta haust.

Musk hafði áður sagt að hann ætli sér að stíga til hliðar sem forstjóri Twitter þegar hann væri búinn að finna einhvern sem væri nægilega „vitlaus“ til að taka við stöðunni.

Elon Musk sagðist munu hætta sem forstjóri í kjölfar skoðanakönnunar á Twitterreikningi hans þar sem hann spurði notendur hvort hann ætti að hætta. Mikið hafði þá gustað um Twitter frá því að Musk keypti félagið í október.

Rúmlega 57 prósent þeirra sem þátt tóku í könnuninni á sínum tíma greiddu atkvæði með því að Musk ætti að láta af störfum. Hann hafði heitið því að fara eftir niðurstöðunni, hver svo sem hún yrði.

Musk sagðist í desember síðastliðinn áfram munu stýra hugbúnaðar- og netþjónateymi félagsins þegar nýr forstjóri hefði verið ráðinn.


Tengdar fréttir

Gær­dagurinn sá versti í átta mánuði hjá Tesla

Virði hlutabréfa rafbílaframleiðandans Tesla var í gær lægra en það hefur verið í meira en tvö ár. Fjárfestar í Tesla óttast að Musk einbeiti sér of mikið að samfélagsmiðlinum Twitter.

Musk hyggst hætta þegar arf­takinn er fundinn

Bandaríski auðjöfurinn Elon Musk hyggst láta af störfum sem forstjóri samfélagsmiðlarisans Twitter þegar búið er að finna einhvern sem sé „nægilega vitlaus til að taka starfið að sér“.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×