Fótbolti

Ancelotti ekki á því að yngja upp

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Hoknir af reynslu.
Hoknir af reynslu. vísir/Getty

Carlo Ancelotti, stjóri Real Madrid, telur að félagið eigi að gera allt sem í sínu valdi stendur til að halda reynsluboltunum Luka Modric, Toni Kroos og Karim Benzema áfram hjá félaginu.

Þremenningarnir eru að klára samning sinn við spænska stórveldið í sumar en þeir hafa verið mikilvægir í afar sigursælu liði Madridinga á undanförnum árum.

„Ég held að þessi mál muni leysast farsællega á endanum. Þetta þokast í rétta átt því þeir eru í viðræðum,“ segir Ancelotti.

Modric, 37 ára, Benzema, 35 ára, og Kroos, 33 ára, hafa verið í misstóru hlutverki hjá Ancelotti á yfirstandandi leiktíð en hann telur mikilvægt fyrir félagið að halda þeim.

„Ég held að þeir verði áfram. Við þurfum að meta leikmenn út frá því hvað þeir gera á vellinum en ekki aldrinum þeirra. Þú getur sagt að þessir leikmenn hafi ekki sömu líkamlegu eiginleika eða sömu orku og yngri leikmenn en það sem þessir þrír hafa hvað varðar að stjórna leikjum er einstakt og ekki eitthvað sem þú getur fundið á leikmannamarkaðnum.“

„Það er fengið með reynslu. Aldurinn tekur eitthvað frá þér en hann gefur þér líka sumt til baka,“ segir hinn reynslumikli Ancelotti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×