Ákærudómstóll í New York samþykkti að gefa út ákæru á hendur Trump fyrir hans þátt í 130.000 dollara greiðslu til fyrrverandi klámleikkonu í aðdraganda forsetakosninganna árið 2016 í gær. Saksóknari á enn eftir að birta ákæruna og því er ekki ljóst fyrir hvað Trump er ákærður nákvæmlega. Til skoðunar er hvort skilgreina megi greiðsluna sem framlög til framboðs Trump og þar af leiðandi langt yfir því hámarki sem einstaklingar mega gefa til framboðs stjórnmálamanna, sem eru 2.700 dollarar. Mögulegt sé því talið að hann verði ákærður fyrir brot á kosningalögum.
Donald Trump flýgur með einkaþotu sinni frá Mar a Lago í Flórída til New York eftir helgi þar sem fulltrúar alríkislögreglunnar taka á móti honum. Lögmaður Trumps segir að gera megi ráð fyrir því að hann verði leiddur fyrir ákærudómstól á þriðjudag. Það liggi þó ekki ljóst fyrir.
Öryggisgæsla verður mjög mikil í New York og líkur eru á því að tilteknum götum verði lokað tímabundið. Samkvæmt Breska ríkisútvarpinu snýr gæslan að mögulegum árásum á Trump eða opinbera starfsmenn. Fjölmargar hótanir hafa borist skrifstofu héraðssaksóknara í ríkinu vegna málsins.
„Saksóknarar eru að reyna að fá eins mikla fjölmiðlaumfjöllun og mögulega hægt er. Forsetinn verður ekki settur í handjárn,“ segir lögmaður Trumps samkvæmt BBC.