Erlent

Adidas setur sig upp á móti merki Black Lives Matter

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Merki Adidas er frá 1952.
Merki Adidas er frá 1952. Getty/Brett Carlsen

Íþróttavörurisinn Adidas hefur farið þess á leit við yfirvöld í Bandaríkjunum að hafna umsókn Black Lives Matter Global Network Foundation um einkaleyfi á merki stofnunarinnar, sem inniheldur þrjár gular línur.

Forsvarsmenn Adidas segja hættu á því að fólk rugli merkinu saman við lógó Adidas, sem einnig inniheldur þrjár línur. Adidas vill sérstaklega koma í veg fyrir að Black Lives Matter lógóið verði notað á vörur sem Adidas framleiðir, svo sem boli, derhúfur og töskur.

Fram kemur í dómskjölum í máli Adidas gegn tískuhúsi hönnuðarins Thom Browne að Adidas hafi höfðað fleiri en 90 mál og gert sátt í fleiri en 200 málum sem tengjast merki fyrirtækisins frá árinu 2008. 

Niðurstaðan í umræddu máli var Thom Browne í vil.

Black Lives Matter Global Network Foundation sótti um einkaleyfi á merki sínu árið 2020, til að nota á vörur á borð við fatnað, töskur, armbönd og drykkjakönnur.

Nokkuð hefur hallað undan fæti hjá Adidas en fyrirtækið fór illa út úr viðskilnaði sínum við listamanninn Kanye West. Þá var greint frá því í gær að slitnað hefði upp úr samstarfi fyrirtækisins við tónlistarkonuna Beyonce um framleiðslu fatalínunnar Ivy Park.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×