Fótbolti

Þjálfarinn sem vann Messi á HM í Katar hætti og tekur við frönsku stelpunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Herve Renard fékk að hætta svo hann gæti tekið við franska kvennalandsliðinu.
Herve Renard fékk að hætta svo hann gæti tekið við franska kvennalandsliðinu. Getty/Youssef Loulidi

Herve Renard hefur sagt starfi sínu lausu sem landsliðsþjálfari Sádi-Arabíu og er á leiðinni á sitt annað heimsmeistaramót á innan við ári.

Hinn 54 ára gamli Renard vakt mikla athygli á HM í Katar í lok síðasta árs þegar hann stýrði landsliði Sádi-Arabíu til sigurs á Argentínu í fyrsta leik.

Ástaæð uppsagnarinnar er að Renard er að taka við franska kvennalandsliðinu og fer með þær á HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi í sumar.

Hann vakti heimsathygli á HM karla í Katar ekki síst fyrir magnaða hálfleiksræðu sem kveikti í hans liði sem var 1-0 undir á móti Argentínu í hálfleik en vann leikinn 2-1

Argentínumenn töpuðu ekki leik á mótinu eftir það og urðu heimsmeistarar en Sádi-Arabarnir töpuðu næstu tveimur leikjum sínum og sátu eftir í riðlinum.

Renard hafði verið landsliðsþjálfari Renard Sádi-Araba frá því í júlí 2019 en Knattspyrnusamband Sádi-Arabíu samþykkti að losa hann undan samningnum og óskaði honum alls hins besta á ferlinum.

Hann fékk tilboð frá franska knattspyrnusambandinu og vildi fá að stökkva á það tækifæri, sagði Yasser Al-Misehal, forseti Knattspyrnusambands Sádi-Arabíu.

Renard tekur við frönsku kvennalandsliði þar sem mikið hefur gengið að undanförnu en fyrirliði þess, Wendie Renard, þvingaði fram þjálfarabreytingu með því að tilkynna að hún myndi ekki spila á HM annars.

Corinne Diacre vildi ekki hætta þrátt fyrir að bestu leikmenn liðsins vildi ekki spila fyrir hana og var á endanum rekin út starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×