Fótbolti

Þjálfari Svía gekk út úr viðtali eftir 5-0 sigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Janne Andersson var mjög pirraður í viðtali eftir leikinn þrátt fyrir að hafa unnið stórsigur.
Janne Andersson var mjög pirraður í viðtali eftir leikinn þrátt fyrir að hafa unnið stórsigur. Getty/Michael Campanella

Svíar unnu 5-0 stórsigur á Aserbaísjan í undankeppni EM í gær og það ætti að vera ástæða til að fá hressan landsliðsþjálfara í viðtal. Viðtalið við Janne Andersson endaði hins vegar ekki vel.

Andersson lenti í orðaskaki við Bojan Djordjic, sérfræðing á Viaplay sjónvarpsstöðinni sem var að sýna leikinn.

Andersson kom til sérfræðinganna í viðtal og tók ekki vel í gagnrýnina á það að hafa ekki leyft Jesper Karlsson að spila meira.

Karlsson átti mjög flotta innkomu í leikinn og skoraði draumamark auk þess að gefa stoðsendingu. Hann fékk þó ekki að fara inn á völlinn fyrr en á 82. múnútu. Djordjic gekk á Andersson og vildi fá svör við því af hverju strákurinn fékk ekki að spila meira.

„Við getum rætt spilatíma leikmanna í allt kvöld. Þá fengju Alexander Isak eða Viktor Gyökeres ekki að spila. Hver á þá ekki að spila,“ spurði Andersson.

„Átta mínútur í tveimur leikjum. Það er of lítið,“ svaraði Bojan Djordjic.

„Hver ætti þá ekki að spila. Ég fæ að velja þessa ellefu. Fyrirgefðu, en þú getur gert það sem þú vilt þegar þú ert landsliðsþjálfari,“ sagði Andersson.

Andersson sakaði Djordjic um væl sem á móti sagði að þjálfarinn væri kominn í of mikla vörn.

„Þú ert fulltrúi tíu milljón manns og ræðst á einhvern sem er yngri en þú,“ sagði Djordjic.

„Með hverjum heldur þú?“ spurði Andersson.

„Svíþjóð auðvitað, hvað annað?“ svaraði Djordjic sem var mjög ósáttur með að landsliðsþjálfarinn væri að reyna að vekja athygli á því að hann væri frá Serbíu.

Þeir héldu áfram að rífast og á endanum fékk landsliðsþjálfarinn alveg nóg.

„Þetta er svo slæmt. Þú stendur þarna og ert með leiðindi eftir leik sem við unnum 5-0. Fjandi er þetta slæmt. Takk fyrir í dag,“ sagði Janne Andersson og gekk út úr viðtalinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×