Erlent

Gríðar­leg eyði­legging í Mississippi

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Gríðarleg eyðilegging er eftir óveðrið.
Gríðarleg eyðilegging er eftir óveðrið. AP Photo/Rogelio V. Solis

Að minnsta kosti 24 eru látnir eftir kraftmikinn hvirfilbyl sem herjaði á Missisippi í Bandaríkjunum í gærkvöldi. Þúsundir eru án rafmagns og stendur leit að fólki í húsarústum yfir. Óveðrið er hið mannskæðasta í tólf ár.

Gríðarleg eyðilegging blasir nú við íbúum á stóru svæði í Mississippi eftir að hvirfilbylurinn herjaði á ríkið og lagði þar allt í rúst. Tugir bygginga eyðilögust í veðurofsanum, húsþök losnuðu og raflínur skemmdust. Þúsundir eru án rafmagns.

„Við erum rétt fyrir utan Rolling Fork og það er stór hvirfilbylur að nálgast bæinn. Bærinn er beint á braut hvirfilbylsins og við erum rétt sunnan við bæinn. Hvirfilbylurinn stefnir beint að okkur,“ sagði viðmælandi við AP-fréttaveituna í gær.

Björgunarsveitir vinna nú að leit að fólki í húsarústum og aðstoða íbúa á svæðinu. Tala látinna stendur í tuttugu og fjórum, fjögurra er saknað og tugir slasaðir. Mikið er um hjólhýsabyggð á stóru svæði og segir íbúi að hvert einasta hjólhýsi hafi fokið burt.

„Um klukkan 8:20 fóru skýstrókasírenurnar af stað til að vara fólkið við svo það gæti leitað skjóls. Þetta gerðist svo hratt. Núna eru mörg hús skemmd á borgarsvæðinu og einnig á öðrum svæðum í sýslunni,“ segir Bruce Williams, lögreglustjóri í Tennessee.

Joe Biden Bandaríkjaforseti vottaði samúð í yfirlýsingu í dag og hvatti Bandaríkjamenn til að biðja fyrir fjölskyldum sem eiga um sárt að binda. Þá hefur ríkisstjóri Mississipi lýst yfir neyðarástandi vegna óveðursins, samkvæmt CNN.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.