Fótbolti

Stjarnan í úrslit Lengjubikarsins eftir sigur í vítakeppni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jasmín Erla Ingadóttir skoraði mark Stjörnunnar í dag og nýtti einnig sína vítaspyrnu í vítaspyrnukeppninni.
Jasmín Erla Ingadóttir skoraði mark Stjörnunnar í dag og nýtti einnig sína vítaspyrnu í vítaspyrnukeppninni. Vísir/Hulda Margrét

Stjarnan er komin í úrslit Lengjubikars kvenna eftir sigur á Þrótti Reykjavík í undanúrslitum í dag. Vítaspyrnukeppni þurfti til að knýja fram úrslit en Stjarnan mætir Þór/KA í úrslitaleik.

Þór/KA tryggði sér sæti í úrslitum Lengjubikarsins með 2-1 sigri á Blikum á fimmtudag og í boði í dag var sæti í úrslitaleik keppninnar gegn Norðankonum.

Leikurinn í dag fór fram á svæði Þróttara í Laugardal en fyrri hálfleikur var markalaus.

Jasmín Erla Ingadóttir kom hins vegar Stjörnunni yfir á 62. mínútu þegar hún fékk fyrirgjöf frá Örnu Dís Arnþórsdóttir eftir fínt spil Stjörnukvenna. Jasmín Erla skoraði af stuttu færi og Garðbæingar komnir yfir.

Þróttarar bættu í sóknina og tókst að jafna þegar langt var liðið á síðari hálfleikinn.

Katla Tryggvadóttir skoraði þá fyrir Þrótt á 77. mínútu þegar boltinn barst til hennar eftir klafs í teignum. Katla kláraði vel og staðan orðin 1-1. Þetta var sjötta mark Kötlu í keppninni.

Staðan 1-1 að loknum venjulegum leiktíma og þar sem ekki er framlengt í leikjum Lengjubikarsins var strax farið í vítaspyrnukeppni.

Bæði lið skoruðu úr fyrstu tveimur umferðum vítakeppninnar en í þeirri þriðju varði Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving í marki Stjörnunnar frá Freyju Karín Þorvarðardóttur.

Í lokaumferðinni þurftu Þróttarar að treysta á að Sædís Rún Heiðarsdóttir myndi klikka á síðustu spyrnu Stjörnunnar en unglingalandsliðskonan Sædís Rún skoraði af öryggi og tryggði Stjörnunni sæti í úrslitum gegn Þór/KA.

Úrslitaleikurinn fer fram laugardaginn 1. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×