Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að tilkynnt hafi verið um mann vopnaðan hafnaboltakylfu við bensínstöð klukkan 23:40 í gærkvöldi. Sá sem var með kylfuna er sagður hafa tekið hana upp til þess að verja sig. Hann beitti þó ekki kylfunni og segist lögreglan hafa leyst málið á vettvangi.
Ökumaður bifreiðar sem lögreglumenn gáfu merki um að stoppa reyndi að flýja í miðborginni á fjórða tímanum í nótt. Nokkrir einstaklingar hlupu út úr bifreiðinni eftir stutta eftirför en þeir náðust allir og voru handteknir.
Einn þeirra var með kveikjuláslykla bifreiðarinnar á sér. Hann er grunaður um að hafa ekið bílnum. Fíkniefni og hnífur fundust á einum mannanna.