Innlent

Koma þurfi í veg fyrir að fólk labbi upp að Glym yfir vetrar­tímann

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Mikill ís er í gilinu. Frá björgunaraðgerðum við Glym í gær.
Mikill ís er í gilinu. Frá björgunaraðgerðum við Glym í gær. landsbjörg

Ferðamálastjóri segir að koma þurfi í veg fyrir að fólk labbi upp að Glym yfir vetrartímann. Hann mun eiga samtal við landeigendur, fulltrúa sveitarfélagsins, lögreglu og aðra hlutaðeigandi aðila til þess að ræða aðgerðir til að auka öryggi á svæðinu. 

Kona á þrítugsaldri lést þegar hún féll á annað hundrað metra við fossinn Glym í Hvalfirði í fyrradag. Aðstæður voru sagðar mjög hættulegar á vettvangi og er slysið í rannsókn. Í kjölfarið hafa skapast umræður um að slysið sýni að bæta þurfi verulega öryggi á ferðamannastöðum landsins. 

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sagði í hádegisfréttum í gær að öryggi við Glym væri verulega ábótavant og að úrbóta sé þörf í víðu samhengi. Stjórnvöld þurfi að girða sig í brók og bæta öryggi vegfarenda.

Jón Þór Víglundsson er upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.egill aðalsteinsson

Arnar Már Ólafsson, ferðamálastjóri tekur undir þetta. Skoða þurfi öryggismál víða.

„Það þarf að bregðast við alls staðar þar sem fyrirséð er að öryggi ferðamanna sé stefnt í hættu. Til dæmis á þessu svæði sem um ræðir þá er yfir vetrartímann fyrirséð að gönguleiðin upp að fossinum þarna austan megin við ána sé mjög varhugaverð. Það er drumbur sem liggur yfir ána, sem á að auðvelda fólki aðgengi, en er fjarlægður á haustin þannig það er ekki ætlast til að fólk sé þarna. Það er líka upplýsingaskilti við bílastæðið þar sem fólk er varað við því að fara þarna um vetrartímann. En það þarf að skoða þetta enn betur og reyna að koma í veg fyrir að fólk fari þarna yfir vetrartímann.“

Bregðast þurfi hratt við. 

„Og ég ætla að hóa saman öllum hlutaðeigandi aðilum sem koma að þessu máli. Bæði landeigendum, sveitarfélögum, björgunarfélaginu á Akranesi, lögreglunni á Vesturlandi og Landsbjörg. Ræða þetta sameiginlega og sjá hvað við þurfum að gera núna til að stuðla að auknu öryggi þarna á staðnum.“


Tengdar fréttir

Hættulegur staður allt árið um kring

Kona á þrítugsaldri lést þegar hún féll á annað hundrað metra við fossinn Glym í Hvalfirði í gær. Aðstæður voru mjög hættulegar á vettvangi, að sögn upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Slysið sýni að bæta þurfi verulega öryggi á ferðamannastöðum landsins.

Þyrlan kölluð út vegna ferða­manns sem féll við Glym

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út að beiðni lögreglunnar á Vesturlandi eftir að tilkynning barst um að maður hafi fallið og slasast nærri fossinum Glym í Hvalfirði um klukkan 10:30 í morgun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.