Innlent

Rofar til síðdegis en ekki sést til vorsins í kortunum

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Loka hefur þurft vegum reglulega í vetur og virðast landsmenn ekki hólpnir enn sem komið er. 
Loka hefur þurft vegum reglulega í vetur og virðast landsmenn ekki hólpnir enn sem komið er.  Vísir/Vilhelm

Fjallvegir víða um land voru ófærir í morgun og var mjög blint sums staðar á norðanverðu landinu, Vestur- og Austfjörðum. Draga á úr vindi og éljum um miðjan dag að sögn veðurfræðings Vegagerðarinnar og er meinlítið veður í kortunum næstu daga. Lægðirnar séu þó að gera sig heimkomnar og áfram megi búast við að loka gæti þurft vegum á næstu vikum.

Fjallvegir voru víða ófærir í morgunsárið eftir lægðargang síðustu daga. Einhverjir vegir voru opnaðir um hádegisbilið en enn eru lokanir á Vestfjörðum, Norðurlandi, Norðausturlandi, Austfjörðum, Suðausturlandi og Suðurlandi. Þá er varað hálku og skafrenningi víða.

„Þegar það hefur náð að hvessa þá skóf og það varð mjög blint sum staðar, til dæmis vestur á fjörðum. Það var ekki mikill snjór til staðar en hann er svo léttur og það var svo hvasst að menn sáu ekkert úr augum. En hins vegar á Austfjörðum þá snjóaði dálítið eins og á Fjarðarheiði og Mývatns- og Möðrudalsöræfum,“ segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur Vegagerðarinnar.

Vindurinn á þó að ganga niður þegar líða fer á daginn.

„Í Öræfunum, þar sem hefur verið bara hvasst en ekki snjókoma, þar verður mikil breyting núna eftir hádegi og sérstaklega um klukkan þrjú og það sama austar, til dæmis á Fjarðaheiði, þar dregur bæði úr vindi og éljum í eftirmiðdaginn og svona smám saman þá fara menn að sjá eitthvað aðeins betur frá sér,“ segir Einar.

Hvað næstu daga varðar sé meinlítið veður í kortunum með hefðbundnum éljagangi og norðaustan átt en bakkinn sem hafi legið utan í suðaustan og austanverðu landinu sé að fara til suðurs. Landsmenn hafi verið í nokkru skjóli frá lægðunum hingað til.

„Núna eru þær farnar að gera sig aðeins heimakomnar en það stefnir í það næstu daga að þær verði hér fyrir sunnan okkur og það kólni á nýjan leik. Síðan verðum við bara að sjá til hvað gerist um miðja næstu viku, hvort það verði breytingar á þessu tíðarfari sem að hefur verið einkennandi fyrir marsmánuð,“ segir Einar.

Ekki sést til vorsins af neinu viti í spám og kemur það ekki í ljós fyrr en um miðja næstu viku. Áfram má gera ráð fyrir að veður hafi áhrif á færð á næstunni.

„Það er svo sem hefðbundið að íslensku vori eða vetri að vegir geta teppst, fjallvegirnir, alveg fram yfir páska og þess vegna fram í maí. Þannig við erum ekkert að komast út úr því ástandi, það er ekkert sem bendir til þess,“ segir Einar.


Tengdar fréttir

Björguðu tólf manns af Dynjandis­heiði

Björgunarsveitir frá Þingeyri, Flateyri og Ísafirði voru kallaðar út til aðstoðar fólks á Dynjandisheiði í gærkvöldi. Á staðnum var skollinn á þreifandi bylur og skyggni lítið sem ekkert. 

Hellisheiði og Þrengslum lokuð

Veginum um Hellisheiði og Þrengsli hefur verið lokað vegna veðurs. Þá hefur hring­veg­in­um verið lokað á á milli Skóga og Vík­ur og milli Lómagnúps og Jök­uls­ár­lóns. Hálkublettir eru víða.

Hvassir austan­vindar og snjó­koma með köflum syðst

Allmikið og alldjúpt lægðasvæði er suður af landinu og veldur hvössum austanvindum, jafnvel stormi eða roki syðst. Snjókoma með köflum eða skafrenningur á sunnanverðu landinu og því getur færðin spillst með skömmum fyrirvara.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×