Fótbolti

Líklegt byrjunarlið Íslands: Hver á að takast á við Dzeko?

Valur Páll Eiríksson skrifar
Guðlaugur Victor Pálsson getur brugðið sér í ýmis hlutverk.
Guðlaugur Victor Pálsson getur brugðið sér í ýmis hlutverk. Getty/Alex Grimm

Íslenska karlalandsliðið hefur leik í undankeppni EM 2024 annað kvöld í borginni Zenica í Bosníu þar sem heimamenn bíða. Einhver spurningamerki vakna þegar kemur að mögulegu byrjunarliði Íslands, þá sérstaklega í öftustu línu.

Aron Einar Gunnarsson verður í banni í leiknum og þá þurfti Sverrir Ingi Ingason að segja sig úr landsliðshópnum en báðir voru líklegir til að leysa miðvarðarstöðuna. Guðmundur Þórarinsson var kallaður inn í hópinn í stað Sverris en sá leikur ekki sem miðvörður.

Daníel Leó Grétarsson og Hörður Björgvin Magnússon eru hreinræktuðu miðverðirnir í hópnum en eru báðir örvfættir. Guðlaugur Victor Pálsson er að upplagi miðjumaður en hefur spilað í miðverði með liði sínu DC United í Bandaríkjunum.

Ljóst er að hverjir þeir sem manna miðvarðastöðurnar eiga snúið verk fyrir höndum að eiga við skærustu stjörnu Bosníu, framherjann Edin Dzeko, sem leikur með Inter Milan á Ítalíu.

Spurningin er síður hvort Guðlaugur Victor byrji og frekar í hvaða stöðu - hvort hann verði djúpur miðjumaður eða miðvörður, eða jafnvel hægri bakvörður.

Jóhann Berg Guðmundsson og Hákon Arnar Haraldsson verða líklega á miðjunni fyrir framan djúpan miðjumann, sem líklegast verður annað hvort Guðlaugur eða Aron Elís Þrándarsson. Þórir Jóhann Helgason gæti þá einnig spilað á miðjunni.

Líklegast er þá að Jón Dagur Þorsteinsson, Alfreð Finnbogason og Arnór Sigurðsson leiði línuna hjá íslenska liðinu í Zenica.

Líklegt byrjunarlið Íslands

Markvörður: Rúnar Alex Rúnarsson

Hægri bakvörður: Alfons Sampsted

Miðvörður: Daníel Leó Grétarsson

Miðvörður: Hörður Björgvin Magnússon

Vinstri bakvörður: Davíð Kristján Ólafsson

Miðjumaður: Guðlaugur Victor Pálsson

Miðjumaður: Jóhann Berg Guðmundsson

Miðjumaður: Hákon Arnar Haraldsson

Hægri kantmaður: Arnór Sigurðsson

Vinstri kantmaður: Jón Dagur Þorsteinsson

Framherji: Alfreð Finnbogason




Fleiri fréttir

Sjá meira


×