Innlent

Samfylkingin fengi 19 þingmenn kjörna

Heimir Már Pétursson skrifar
Fylgi Samfylkingarinnar hefur rúmlega tvöfaldast frá kosningunum árið 2021 og aukist mikið frá því Kristrún Frostadóttir tók við formennsku í flokknum.
Fylgi Samfylkingarinnar hefur rúmlega tvöfaldast frá kosningunum árið 2021 og aukist mikið frá því Kristrún Frostadóttir tók við formennsku í flokknum. Stöð 2

Samfylkingin er stærri en Sjálfstæðisflokkurinn þriðja mánuðinn í röð í könnunum Maskínu fyrir fréttastofuna. Flokkurinn sækir fylgi tiltölulega jafnt til allra aldurshópa en Sjálfstæðisflokkurinn höfðar meira til eldri kynslóða en þeirra yngri.

Samfylkingin mælist nú með 24,4 prósent og er þriðja mánuðinn í röð með meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn með 20,2 prósent í könnun Maskínu sem gerð var dagana 6. til 20. mars.

Framsóknarflokkurinn, Viðreisn og Sósíalistaflokkurinn bæta aðeins við sig frá síðustu könnun Maskínu í febrúar og Miðflokkurinn stendur nánast í stað. Hins vegar missa Píratar 2,5 prósentustig og mælast nú með 10,2 prósent og Vinstri græn halda áfram að missa fylgi og mælast nú með aðeins 6 prósenta fylgi.

Það er forvitnilegt að skoða fylgi flokkanna eftir aldurshópum. Þrátt fyrir mikið fylgistap Framsóknarflokksins frákosningum þar sem flokkurinn fékk 17,2 prósenta fylgi, mælist hann ekki langt frá því fylgi hjá yngsta aldurshópnum 18-29 ára eða 16,2 prósent. Í öðrum aldurshópum er fylgið frá um 11 prósentum til tæplega 13 prósenta.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins er minnst í yngsta aldurshópnum eða 16,5 prósent en mest hjá kjósendum á aldrinum 50 til 59 ára þar sem það er 25,6 prósent og 22,1 prósent hjá 60 plús. Sósíalistaflokkurinn sækir mest fylgi til yngsta aldurshópsins eða 9,2 prósent, Miðflokkurinn mest í sextíu ára og eldri eða 9,5 prósent og Píratar sækja mest af sínu fylgi til fólks á aldrinum 30-39 ára eða 16,4 prósent.

Fylgi Samfylkingarinnar dreifist nokkuð jafnt á aldurshópana en er þó sýnu mest hjá yngsta aldurshópnum þar sem það er 25,6 prósent. Vinstri græn sækja hins vegar mest af sínu fylgi til tveggja elstu aldurshópanna þar sem það er 7 til 8 prósent en minnst til yngsta aldurshópsins þar sem það er aðeins 3,6 prósent.

Ef könnun Maskínu yrði niðurstaða kosninga væri stjórnarmeirihlutinn kolfallinn með samanlagt 29 þingmenn. Samfylkingin og Framsókn fengju samanlagt 30 þingmenn og þyrftu að lágmarki tvo þingmenn til viðbótar frá einhverjum hinna flokkanna til að mynda ríkisstjórn.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×