Innlent

Sam­fylkingin bætir enn við sig fylgi á kostnað stjórnar­flokkanna

Heimir Már Pétursson skrifar
Kristrún Frostadóttir tilkynnti um framboð sitt til embættis formanns Samfylkingarinnar hinn 19. ágúst í fyrra.
Kristrún Frostadóttir tilkynnti um framboð sitt til embættis formanns Samfylkingarinnar hinn 19. ágúst í fyrra. Vísir/Vilhelm

Samfylkingin heldur áfram að auka fylgi sitt samkvæmt könnun Maskínu og er nú lang stærsti flokkur landsins með 24 prósent atkvæða. Fylgið heldur áfram að hrynja af Vinstri grænum og meirihluti stjórnarflokkanna er fallinn samkvæmt könnununni.

Könnun Maskínu var gerð dagana 6. til 20. mars og tóku 1.599 manns afstöðu. Samkvæmt henni nýtur Samfylkingin stuðnings 24 prósenta kjósenda, Sjálfstæðisflokkurinn 20 prósenta og Framsóknarflokkurinn 13, 2 prósenta. Framsóknarmenn hafa aukið fylgi sitt um rétt rúmlega prósentustig frá síðustu könnun Maskínu í febrúar. Fylgi Vinstri grænna heldur hins vegar áfram að minnka og mælist nú aðeins 6 prósentustig en það var 6,7 prósent í síðasta mánuði.

Fylgi flokka á Alþingi samkvæmt könnun Maskínu í marsmánuði.Vísir

Viðreisn og Sósíalistaflokkurinn auka einnig fylgi sitt um eitt prósentustig milli kannanna. Viðreisn mælist nú með 9 prósent og Sósíalistaflokkurinn með 6, sama fylgi og Vinstri græn og Miðflokkurinn. Fylgi Pírata minnkar hins vegar töluvert milli kannana eða um 2,5 prósentustig og mælist nú 10 prósent.

Sameiginlegt fylgi stjórnarflokkanna var 54 prósent í kosningunum í september 2021. Það fór í fyrsta skipti undir 40 prósent í síðasta mánuði og mældist þá 39,1 prósent og mælist nú á svipuðum slóðum eða 39,3 prósent.

Samfylkingin hefur bætt við sig lang mestu fylgi allra flokka frá kosningum. Flokkurinn fékk 9,9 prósent í kosningunum en mælist nú eins og áður sagði með 24 prósent atkvæða.

 Á sama tíma hafa Vinstri græn tapað fylgi ríflega heilmings kjósenda sinna. Flokkurinn fékk 12,6 prósent atkvæða í kosningunum en mælist nú með 6 prósent.


Tengdar fréttir

Stuðningur við ríkis­stjórnina aldrei verið minni

Fylgi ríkisstjórnarinnar minnkar um fjögur prósentustig í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup og stendur nú í 42 prósentum. Stuðningur við stjórnarflokkana þrjá mælist fjörutíu prósent og minnkar um tvö prósentustig. 

Flókið að mynda ríkisstjórn miðað við kannanir

Núverandi stjórnarflokkar næðu ekki að mynda meirihluta á Alþingi samkvæmt tveimur nýjustu könnunum Maskínu og Gallups. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin mælast með álíka mikið fylgi í báðum könnunum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.