Fótbolti

FIFPRO pressar á FIFA: „Sama vinna og sami árangur ætti að fá sömu verðlaun“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bandarísku landsliðskonurnar fagna sigri á HM 2019 en Bandaríkin fékk fjóra milljón dollara fyrir sigurinn á meðan karlalið Argentínu fékk 42 milljónir dollara fyrir sigurinn á HM 2022.
Bandarísku landsliðskonurnar fagna sigri á HM 2019 en Bandaríkin fékk fjóra milljón dollara fyrir sigurinn á meðan karlalið Argentínu fékk 42 milljónir dollara fyrir sigurinn á HM 2022. Getty/Mikoaj Barbanell

Alþjóða leikmannasamtökin FIFPRO, kalla nú formlega eftir því að Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, jafni aðstöðu og almennan hlut kvenna á heimsmeistaramótum miðað við hvað karlpeningurinn fær að njóta á samskonar mótum.

FIFPRO vakti athygli á þeirri staðreynd að konur á HM 2019 fengu aðeins sjö prósent af því sem karlarnir fengu á HM 2022.

Nú hafa leikmannasamtökin skrifað bréf til FIFA þar sem kallað er eftir jafnrétti varðandi aðstöðu, aðbúnað og verðlaunafé á HM kvenna og HM karla í fótbolta.

ESPN fékk að sjá bréfið sem var sent beint til Gianni Infantino, forseta FIFA, í október síðastliðnum eða rétt fyrir heimsmeistaramót karla í Katar.

The Wall Street Journal fjallaði fyrst um málið en fjórir mánuðir eru í að HM kvenna hefjist sem fer að þessu sinni fram í Ástralíu og Nýja Sjálandi.

Leikmannasamtökin segja meðal annars að mun lægra verðlaunafé hafi það meðal annars í för með sér að þjóðir munu setja karlalandsliðið í forgang yfir kvennalandsliðið. Um leið er litið á kvennafótbolta sem útgjaldalið en ekki að hann sé að leggja eitthvað fram til íþróttarinnar.

„Sama vinna og sami árangur ætti að fá sömu verðlaun,“ segir meðal annars í bréfinu.

ESPN fékk líka yfirlýsingu frá FIFPRO og þar segir meðal annars að leikmenn frá 150 kvennalandsliðum í heimi hafi skrifað undir bréfið sem var sent til Infantino og FIFA í október á síðasta ári.

Verðlaunaféð á HM í Katar var alls upp á 440 milljónir dollara, 63 milljarðar, þar af fengu heimsmeistarar Argentínu 42 milljónir dollara, sex milljarða króna. Árið 2019 var heildarupphæð verðlaunafés á HM kvenna 30 milljónir dollara, 4,2 milljarðar króna þar af fengu heimsmeistarar Bandaríkjanna fjórar milljónir dollara eða 572 milljónir íslenskra króna.

Fótboltakonur heimsins vilja skilja við íþróttina sína í betri stöðu en þegar þær komu inn í hana þannig að næsta kynslóð knattspyrnukvenna geti notið betri aðstöðu og betri tækifæra en þær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×