Innlent

Enn reynt að fá Tálknfirðinga til að sameinast Vesturbyggð

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ólafur Þór Ólafsson er sveitarstjóri Tálknafjarðar.
Ólafur Þór Ólafsson er sveitarstjóri Tálknafjarðar. Steingrímur Dúi Másson

Eftir að hafa ítrekað fellt sameiningu við Vesturbyggð hafa Tálknfirðingar núna samþykkt að hefja viðræður um sameiningu sveitarfélaganna og er stefnt að því að íbúar fái að kjósa um málið fyrir lok þessa árs.

Í fréttum Stöðvar 2 könnuðum við sameiningarhug fyrir vestan og ræddum við Ólaf Þór Ólafsson, sveitarstjóra Tálknafjarðar, og Þórkötlu Soffíu Ólafsdóttur, formann bæjarráðs Vesturbyggðar.

Þrjátíu ár verða liðin á næsta ári frá því öll sveitarfélög á sunnanverðum Vestfjörðum nema Tálknafjörður sameinuðust í Vesturbyggð. Patreksfirðingar og Bílddælingar runnu þannig saman en með Tálknfirðinga á milli sín.

Tálknfirðingar hafa tvívegis áður kosið um sameiningu en jafnan fellt. En hvað hefur breyst núna? 

Aðstæður á Vestfjörðum eru núna aðrar, segir sveitarstjórinn á Tálknafirði. Breytt umhverfi sé í atvinnulífi. Takast þurfi á við önnur og stór verkefni.

„Mín tilfinning er sú að fólk finni að það sé betra að sveitarfélagið á sunnanverðum Vestfjörðum sé stærra og öflugra sem tekst á við þau,“ segir Ólafur Þór.

Þórkatla Soffía Ólafsdóttir er formaður bæjarráðs Vesturbyggðar.Steingrímur Dúi Másson

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur einnig samþykkt að hefja formlegar sameiningarviðræður, að sögn formanns bæjarráðs.

„Við teljum það vera mikilvægt að hafa eina rödd frá sunnanverðum Vestfjörðum. Við verðum sterkari á móti,“ segir Þórkatla Soffía.

Alls búa núna 1.130 manns í Vesturbyggð en þar er Patreksfjörður fjölmennasta byggðin með 740 íbúa, miðað við 240 íbúa á Tálknafirði.

Forystumenn sveitarfélaganna segja brýnt að sameiningu fylgi bættar samgöngur. Jarðgöng eru sérstaklega nefnd og það bæði undir Hálfdán og Mikladal.

En hvað var þetta með Tálknfirðinga? Af hverju voru þeir alltaf svona á móti sameiningu?

Svar sveitarstjórans má sjá hér í frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Opinber störf vegna fiskeldis fari á sunnanverða Vestfirði

Forystumenn á Vestfjörðum þrýsta á að rannsóknar- og eftirlitsstörf vegna fiskeldis verði staðsett í fjórðungnum enda séu vestfirsk samfélög og firðir undir. Formaður bæjarráðs Vesturbyggðar segir að til þessa hafi ekkert einasta opinbert starf vegna greinarinnar komið á sunnanverða Vestfirði.

Vestfirðingar vilja láta bora fern ný jarðgöng

Forystumenn á Vestfjörðum telja þörf á minnst fernum nýjum jarðgöngum í fjórðungum til að koma samgöngumálum þar í viðunandi horf; einum á norðanverðum fjörðunum og þrennum á sunnanverðum.

Vilja fá nýjan Baldur strax í siglingar yfir Breiðafjörð

Samgöngumálin brenna á Vestfirðingum sem aldrei fyrr. Umræðan hefur enn og aftur blossað upp eftir óhapp á Hjallahálsi um síðustu helgi þar sem vöruflutningabíll valt. Á sunnanverðum Vestfjörðum vilja samtök atvinnurekenda fá nýjan Baldur strax.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×