Viðskipti innlent

Vilja fá nýjan Baldur strax í siglingar yfir Breiðafjörð

Kristján Már Unnarsson skrifar
Sigurður Viggósson, formaður Samtaka atvinnurekanda á sunnanverðum Vestfjörðum, á bryggjunni á Brjánslæk í kvöld. Fyrir aftan sést í ferjuna Baldur.
Sigurður Viggósson, formaður Samtaka atvinnurekanda á sunnanverðum Vestfjörðum, á bryggjunni á Brjánslæk í kvöld. Fyrir aftan sést í ferjuna Baldur. Egill Aðalsteinsson

Þegar Breiðafjarðarferjan Baldur lagðist að bryggju á Brjánslæk nú síðdegis var hún svo stútfull af vöruflutningabílum, vinnuvélum og fólksbílum að skilja varð fjóra trukka eftir á bryggjunni í Stykkishólmi. Það er rétt eins og sunnanverðir Vestfirðir séu eyja, án þjóðvegakerfis.

„Við erum eyja. Þjóðvegakerfið er bara ónýtt, búið að vera lengi. Þannig að við verðum að nota Baldur,“ sagði Sigurður Viggósson, formaður Samtaka atvinnurekanda á sunnanverðum Vestfjörðum, í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 frá Brjánslæk á Barðaströnd.

Baldur að koma að Brjánslæk undir kvöld eftir siglingu yfir Breiðafjörð. Skilja varð fjóra trukka eftir í Stykkishólmi þar sem ekki var pláss um borð.Egill Aðalsteinsson

„Baldur er að koma hér daglega. Hann er allt of lítill og verður því miður að skilja margoft eftir bíla. Og þá verða menn að keyra.“

Þessi mikla þörf á þjónustu Baldurs endurspeglar jafnframt þann þrótt sem er í atvinnulífinu á sunnanverðum Vestfjörðum.

„Já, já. Þetta er orðið tíu trukkar á dag, bara aðra leiðina. Hér hefur vaxið mjög hratt atvinnulífið. Framleiðslan í laxi og botnfiski og svo er kalkþörungurinn. Þetta gerir það að verkum að við erum orðnir mjög stórir,“ sagði Sigurður, sem jafnframt er stjórnarformaður sjávarútvegsfyrirtækisins Odda hf. á Patreksfirði.

Á sama tíma berast fréttir af nýjum verkefnum í samgöngumálum. Þannig eru hafnar framkvæmdir við nýjan veg yfir Dynjandisheiði, vegagerð um Gufudalssveit er að fara af stað og nýbúið að opna Dýrafjarðargöng. En verður hægt að leggja af Breiðafjarðarferjuna þegar allt þetta verður klárt?

„Nei, þá verður eftir Klettshálsinn. Hann er alltaf ófær yfir háveturinn þegar verst er og þá verður að hafa Baldur. Við þurfum nýjan Baldur strax og hann verður örugglega í fimmtán ár,“ sagði Sigurður.

Hér má sjá útsendingu Stöðvar 2 frá Brjánslæk.


Tengdar fréttir

Segir réttast að gefa Landvernd trukkinn

Flutningabíl sem valt með fiskfarm á Hjallahálsi á Vestfjörðum á föstudag var náð upp í dag. Eigandi flutningafyrirtækisins er óhress með margra ára drátt á endurbótum Vestfjarðavegar og segist skrifa tafirnar á reikning Landverndar.

Flautuðu af gleði þegar þeir prófuðu göngin í fyrsta sinn

Vestfirðingar flautuðu úr bílum sínum af gleði þegar Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra gaf fyrirmæli um að lyfta skyldi slánni við gangamunna Dýrafjarðarganga. Þegar þeir svo óku í gegn flautuðu þeir ennþá meira.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.