Fótbolti

Grindavík náði í stig á Hlíðarenda og KR lagði ÍA

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kristján Flóki skoraði eitt marka KR í kvöld.
Kristján Flóki skoraði eitt marka KR í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

KR vann góðan endurkomusigur á ÍA þegar liðin mættust í Lengjubikarnum í kvöld. Þá gerði Lengjudeildarlið Grindavíkur góða ferð á Hlíðarenda og náðu í stig gegn sterku liði Vals.

Þeir eru löngu orðnir klassískir leikir KR og ÍA í knattspyrnunni og þó svo að leikurinn í kvöld sé ekki í Íslandsmóti eða bikarkeppni er alltaf mikið undir þegar þessi lið mætast á knattspyrnuvellinum.

KR hefur verið að spila vel í Lengjubikarnum að undanförnu en ÍA er í uppbyggingu enda féll liðið í Lengjudeildina síðasta sumar.

Það voru þó Skagamenn sem skoruðu fyrsta mark leiksins í kvöld. Framherjinn Viktor Jónsson kom þeim yfir á þriðju mínútu leiksins.

KR var hins vegar búið að ná forystunni áður en fyrri hálfleikur var á enda. Fyrst skoraði Jóhannes Kristinn Bjarnason á 21.mínútu en hann hefur farið vel af stað með KR eftir að hafa gengið til liðs við Vesturbæinga frá Norrköping fyrir ekki svo löngu síðan.

Á 45.mínútu kom Kristján Flóki Finnbogason KR síðan í 2-1 og þannig var staðan í hálfleik. Í síðari hálfleik bætti KR við einu marki. Freyr Þrastarson skoraði á 85.mínútu og tryggði KR 3-1 sigur.

KR lýkur keppni í riðlinum í öðru sæti með tólf stig, einu stigi á eftir Val.

Fyrir leikinn í kvöld var Grindavík án stiga eftir þrjá leiki á meðan Valsmenn höfðu unnið sína fjóra leiki. Valsmönnum tókst hins vegar ekki að skora í kvöld, Grindvíkingar héldu markinu hreinu og náðu í sitt fyrsta stig í Lengjubikarnum.

Lokatölur 0-0 og stigið gott veganesti fyrir Grindvíkinga í undirbúningi þeirra fyrir Íslandsmótið.

Valur endar riðilinn með 13 stig, einu stigi á undan KR. Valsmenn fara því áfram í undanúrslit en KR situr eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×