Erlent

Reyndi að opna neyðar­út­gang og stakk flug­þjón

Árni Sæberg skrifar
Atvikið varð um borð í farþegaþotu United í gær.
Atvikið varð um borð í farþegaþotu United í gær. Nicolas Economou/Getty

Bandarískur karlmaður hefur verið kærður fyrir að hafa reynt að opna neyðarútgang farþegaþotu United á leið frá Los Angeles til Boston og að hafa stungið flugþjón í þrígang í hálsinn með brotinni skeið í gær.

Aðeins um klukkustund var eftir af flugi flugvélarinnar þegar áhöfnarmeðlimir í flugstjórnarklefanum fengu meldingu um að aflæsa einum dyrum þotunnar.

Flugþjónn var þá beðinn um að athuga málið og hann sá að búið var að taka dyrnar úr læstri stöðu og afvirkja neyðarrennuna frá þeim. Þetta segir í skýrslu saksóknaraembættis Massachusetts um atvikið.

Sást standa við útganginn

Þá segir að flugþjónninn hafi rætt við annan slíkan sem staðsettur var við neyðarútganginn og sagðist hafa séð manninn, sem heitir Francisco Severo Torres og er 33 ára gamall, standa við neyðarútganginn.

Þá hafi flugþjónninn rætt við Torres og spurt hann hvort hann hefði fiktað við dyrnar. Þá er hann sagður hafa spurt hvort myndavélar væru við útganginn sem sanni að hann hafi gert það.

Sagði flugstjóra að lenda þotunni sem fyrst

Flugþjóninn gaf sig síðan að tali við flugstjóra flugvélarinnar og sagðist halda að Torres væri ógn við öryggi flugsins og að hann þyrfti að lenda flugvélinni sem allra fyrst.

Áður en það var gert er Torres sagður hafa gengið að neyðarútganginum þar sem tveir flugþjónar voru og ráðist að öðrum þeirra með brotinn málmskeið. Hann hæfði flugþjóninn þrisvar í hálsinn en ekkert liggur fyrir að svo stöddu um líðan hans.

Aðrir farþegar um borð í flugvélinni brugðust hratt við og yfirbuguðu Torres og héldu honum niðri þar til flugvélinni var lent á Logan flugvelli í Boston, þar sem laganna verðir biðu hans.

Hann hefur nú verið handtekinn og kærður vegna gruns um að hafa reynt að hafa áhrif á störf áhafnar farþegaflugvélar með vopni. Í skýrslunni segir að refsing við slíku broti geti verið allt að lífstíðarfangelsi, fimm ára skilorðsbundinn dómur eða 250 þúsund dala , eða um 35 milljóna króna, sekt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×