Fótbolti

Nafnarnir skoruðu þrjú í stórsigri Norrköping

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arnór Sigurðsson skoraði tvívegis í dag.
Arnór Sigurðsson skoraði tvívegis í dag. Norrköping

Nafnarnir Arnór Sigurðsson og Arnór Ingvi Traustason skoruðu þrjú af fjórum mörkum Norrköping er liðið vann öruggan 4-0 útisigur gegn IFK Gautaborg í sænsku bikarkeppninni í fótbolta í dag.

Arnór Sigurðsson barut ísinn fyrir liðið á 37. mínútu leiksins áður en Arnór Ingvi tvöfaldaði forystu Norrköping í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Sá fyrrnefndi var aftur á ferðinni þegar hann skoraði þriðja mark Norrköping úr vitaspyrnu um miðjan síðari hálfleik, en það var svo Laorent Shabani sem gulltryggði sigurinn þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka.

Adam Ingi Benediktsson stóð í markinu hjá Gautaborg í leiknum og Andri Lúcas Guðjohnsen kom inn af varamannabekknum hjá Norrköping þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka.

Norrköping trónir á toppi sjöunda riðils sænsku bikarkeppninnar eftir sigur dagsins með sjö stig eftir þrjá leiki, en Gautaborg situr í þriðja sæti með þrjú stig.

Þá var Davíð Kristján Ólafsson í byrjunarliði Kalmar sem vann 4-1 sigur gegn Helsingborg, og Böðvar Böðvarsson var á sínum stað í byrjunarliði Trelleborg sem vann 1-0 sigur gegn Onsala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×