Eins og fjallað var um í fréttatíma okkar í gær var hið svokallaða Euro market mál látið niður falla fyrir nokkrum dögum. En málið var kynnt sem eitt allra stærsta peningaþvættis og fíkniefnamál sem yfirvöld hafa tekist á við.
Haldinn var stór blaðamannafundur þar sem málið var kynnt og fjölmiðlum boðið á staðinn, en nú þegar málið hefur verið fellt niður hefur verið minna um svör.
Steinbergur Finnbogason, lögmaður eins þeirra sem höfðu stöðu grunaðs manns í næstum 6 ár gagnrýnir þessa blaðamannafundi.
„Þarna er hlutlægni lögreglu varpað alveg frá þar sem að lögregla, í beinni útsendingu oftar en ekki, kemur fram til þess að útskýra mál með einhverjum hætti. Eins og það sé búið að sakfella fólk. Þessi fundur þarna í desember 2017 var þannig uppsettur að því var bara hreinlega haldið fram að þetta væri stærsta peningaþvættismál íslandssögunnar.“
Steinbergur segir engin fíkniefni hafa fundist yfir höfuð. Málið var mörg ár í rannsókn en tjón þeirra sem höfðu réttarstöðu sakborninga allan þennan tíma er talsvert að sögn hans.
„Já og svo ef maður tekur afleiðingar fólksins sjálfs. Að vera handtekin um miðja nótt af sérsveit lögreglunnar undir alvæpni. Hneppt í gæsluvarðhald vikum saman. Svo að vera haldið með þessa réttarstöðu allan þennan tíma er mjög þungbært.“
Svona stórir blaðamannafundir séu orðnir full algengir og endi yfirleitt á einn veg.
„Ég man ekki eftir neinu máli þar sem þetta hefur verið gert þar sem það hefur ekki sprungið með einhverjum hætti í andlit lögreglu. Hvort sem það er hryðjuverkamálið eða þessi borðum skreytti fundur 2017 eða Rauðagerðismálið eða fleiri mál.“
Skjólstæðingur Steinbergs hyggst leita réttar síns.
„Ég geng fastlega útfrá því að gengið verði eftir bótum í málinu.“