Samkvæmt frönskum miðlum á borð við Le Parisien munu Hakimi og konan hafa kynnst í gegnum Instagram og ákveðið að hittast, en hann er kvæntur tveggja barna faðir.
Þau munu svo hafa hist á heimili Hakimi í París síðastliðið laugardagskvöld, og daginn eftir leitaði konan til lögreglu.
Lögmaður Hakimi, Fanny Colin, sagði í yfirlýsingu til Le Parisien að leikmaðurinn hefði ekki gert neitt rangt:
„Ásakanirnar eru falskar. Hann er rólegur og í höndum réttarkerfisins,“ sagði Colin.
Ekkert hefur heyrst frá PSG vegna málsins en fréttir af því tóku að berast á mánudag, aðeins örfáum klukkustundum áður en Hakimi mætti á verðlaunahóf FIFA þar sem besta knattspyrnufólk ársins 2022 var heiðrað. Þar var Hakimi valinn í úrvalslið ársins.
AFP hefur einnig leitað eftir viðbrögðum frá lögreglu sem vill ekki tjá sig um málið.
Hakimi, sem er 24 ára gamall, var hluti af marokkóska landsliðinu sem sló í gegn á HM í Katar í desember og náði 4. sæti. Hann hefur spilað 61 landsleik og skorað átta mörk. Hakimi gekk í raðir PSG árið 2021 eftir að hafa einnig spilað fyrir Real Madrid, Dortmund og Inter.