Fótbolti

Alaba varð fyrir kynþáttaníði eftir að hafa valið Messi fram yfir Benzema

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Karim Benzema og David Alaba á æfingu með Real Madrid.
Karim Benzema og David Alaba á æfingu með Real Madrid. getty/Antonio Villalba

David Alaba varð fyrir kynþáttaníði eftir að hafa kosið Lionel Messi besta leikmann heims en ekki samherja sinn hjá Real Madrid, Karim Benzema.

Messi var valinn besti leikmaður heims 2022 af FIFA. Verðlaunaafhendingin fór fram í París í gær. Kylian Mbappé varð í 2. sæti og Benzema í því þriðja. Þjálfarar, fyrirliðar og blaðamenn frá öllum löndum taka þátt í kjörinu.

Alaba var með Messi í efsta sæti á sínum kjörseðli en ekki Benzema sem hann leikur með hjá Real Madrid. Alaba og Benzema urðu Spánar- og Evrópumeistarar með Real Madrid á síðasta tímabili.

Nokkrir óvandaðir stuðningsmenn Real Madrid voru ekki sáttir við þetta val Alabas og beittu hann kynþáttaníði á samfélagsmiðlum og óskuðu eftir því að hann færi frá félaginu.

Alaba fann sig knúinn til að greina frá því að ákvörðunin að hafa Messi í efsta sæti á sínum kjörseðli hefði verið tekin með félögum sínum í austurríska landsliðinu en ekki af honum einum. „Allir, sérstaklega Karim, vita hversu mikils ég met hann og frammistöðu hans,“ skrifaði Alaba á samfélagsmiðla.

Alaba kom til Real Madrid á frjálsri sölu frá Bayern München fyrir síðasta tímabil. Austurríkismaðurinn hefur leikið 75 leiki fyrir Madrídarliðið og skorað fimm mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×