Fótbolti

Ha­kimi sakaður um nauðgun

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hakimi hefur spilað með PSG síðan 2021.
Hakimi hefur spilað með PSG síðan 2021. EPA-EFE/Mohammed Badra

Samkvæmt franska miðlinum Le Parisen hefur kona sakað hinn gifta tveggja barna föður Achraf Hakimi, leikmann París Saint-Germain, um að hafa nauðgað sér.

Atvikið átti sér stað um liðna helgi þegar hinn 24 ára gamli Hakimi var einn heima þar sem kona hans og börn voru í fríi í Dúbaí. Hakimi bauð konunni heim til sín og borgaði meira að segja fyrir Uber-leigubíl fyrir hana. Þegar inn var komið á Hakimi að hafa kysst konuna, afklætt hana og sofið hjá henni án hennar samþykkis. 

Samkvæmt fréttum frá París á bakvörðurinn fyrst að hafa sent konunni skilaboð þann 16. janúar síðastliðinn. Eftir að konan komst undan Hakimi ku hún hafa hringt í vinkonu sína sem sótti hana heim til leikmannsins.

Konan fór til lögreglunnar og gaf skýrslu þar sem hún sagði að Hakimi hefði nauðgað sér. Hún vildi upphaflega ekki leggja fram kæru en vegna alvarleika málsins hafi lögreglan ákveðið að hefja rannsókn.

Hakimi var hvergi sjáanlegur þegar PSG lagði Marseille á sunnudag. Hann er að glíma við meiðsli og var því ekki í leikmannahóp liðsins.

Rétt eftir að fyrstu fréttir bárust þess efnis að lögreglan í París væri með mál Hakimi til rannsóknar þá steig hann á svið er Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, verðlaunaði þá sem valdir voru í lið ársins.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×