Innlent

Flúðu hörmungar í heima­landinu: „Stríðið hófst í raun og veru árið 2014“

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Dmytro, Nataliia og Yeva eru meðal þeirra þúsunda sem hafa flúið til Íslands vegna innrásarinnar.
Dmytro, Nataliia og Yeva eru meðal þeirra þúsunda sem hafa flúið til Íslands vegna innrásarinnar. Vísir/Samsett

Þrír Úkraínumenn sem hafa sest að hér á landi eftir að innrás Rússa hófst segja stöðuna í heimalandinu áfram erfiða. Þau þakka fyrir stuðning Íslendinga og segjast hafa fengið góðar móttökur, þó flóttinn hafi falið í sér ýmsar fórnir. Öll segjast þau elska heimalandið og eru fullviss um sigur Úkraínu en það muni taka tíma. Ein sem kom upprunalega frá Donbas bendir á að stríðið hafi í raun staðið yfir í níu ár.

Úkraínumenn víða um heim minntust þess í dag að ár er liðið frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu og hófu þar með stríð í Evrópu sem hefur haft áhrif á alla landsbyggðina, ekki síst Ísland. 

Úkraínumenn á Íslandi komu saman á Kænugarðstorgi síðdegis fyrir minningarathöfn þar sem mínútu þögn fór fram. Þá mótmæltu Rússar sem eru andvígir innrásinni fyrir utan rússneska sendiráðið þar sem meðal annars var kveikt í brúðu í líki Vladímír Pútíns Rússlandsforseta. 

Vill vera áfram á Íslandi

Frá því að innrásin hófst hafa þúsundir Úkraínumanna leitað til Íslands. Hin sextán ára Yeva Iskra er þeirra á meðal en hún bjó í hafnarborginni Odesa þegar stríðið hófst. Hún kom til landsins í september með foreldrum sínum en bróðir hennar og köttur varð eftir. 

Yeva Iskra bjó í hafnarborginni Odesa fyrir innrásina en kom til Íslands í september. Vísir/Einar

„Þegar allt þetta byrjaði var ég mjög döpur. Það var ekki beint þunglyndi heldur sorg. En nú á ég marga vini, fjölskyldan mín hjálpaði mér, vinir mínir hjálpuðu mér. Ég á marga nýja vini frá Póllandi frá því að ég var þar og einnig frá Íslandi. Margir hafa hjálpað mér og núna er þetta betra,“ segir Yeva.

Sjálf segist hún nokkrum sinnum hafa orðið vör við sprengingar en að staðan hafi skánað eftir fyrstu mánuðina. Hún bindur vonir við að staðan verði betri í Úkraínu en sér fyrir sér að vera áfram á Íslandi eftir að stríðinu lýkur.

„Ég elska þetta land, ég elska þetta fólk og ég vildi gjarnan læra hérna, svo ég held að ég vilji vera hér áfram,“ segir Yeva. „Ég elska Úkraínu, það er heimili mitt og ég mun alltaf elska það en núna held ég að það sé mjög erfitt að vera þar og læra því að staðan er flókin.“

Vonar að allt fari vel

Dmytro Veremenko flutti þá til Íslands í síðasta mánuði en hann hafði áður starfað sem sérfræðingur í Tsjernobyl. Bróðir, systir og móðir hans eru enn í Úkraínu þar sem staðan er að hans sögn enn mjög flókin.

Dmytro Veremenko hafði starfað í Tsjernóbyl fyrir innrásina en hann kom til Íslands í janúar. Vísir/Einar

„Ég tel að ástandið sé slæmt því stríðið heldur áfram. Ég held að þetta sé erfitt ástand fyrir alla í heiminum,“ segir Dmytro. „Ég held að þetta stríð haldi áfram, ég held ekki að því ljúki á þessu ári, en ég vona að þetta fari allt vel. Ég vona það sannarlega.“

Hann sér fyrir sér að vera áfram á Íslandi um nokkurn tíma en segir ekki víst hvort hann snúi að lokum aftur til Úkraínu.

„Nú er ég í fríi og ég vil vera á Íslandi í einhvern tíma. Kannski eftir það fer ég mögulega til Kanada eða fer til Úkraínu. Ég veit það ekki fyrir víst, ekki núna,“ segir Dmytro. „Ísland er mjög gott land fyrir mig, ég er jarðfræðingur upprunalega þannig Ísland er mjög áhugavert að mínu mati.“

Stríðið hafi í raun staðið yfir í níu ár

Nataliia Tkachova kom þá til Íslands í fyrra en hún bendir á að stríðið hafi hafist áður en innrásin sjálf hófst. Hún bjó upprunalega í Luhansk í Donbas héraði þar sem aðskilnaðarsinnar höfðu verið við völd frá árinu 2014, eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga. Þá var Luhansk eitt af fjórum héruðum sem Rússar innlimuðu síðasta haust. Árið 2014 flúði Natalia með dætrum sínum til Kænugarðs.

„Fyrir mér þá hefur stríðið staðið yfir í níu ár. Stríðið hófst í raun og veru árið 2014 og ég var með dætur mínar ungar á þessum tíma. Við fluttum í nágrenni Kænugarðs því að Luhansk var hersetið og við áttuðum okkur á að við vildum ekki lifa í rússneskum heimi,“ segir Nataliia og bætir við að aðstæður hafi verið skelfilegar, ekki síst fyrir ung börn.

Þann 24. febrúar 2022 breyttist allt aftur og sjálf segist Nataliia ekki hafa getað sofið um nóttina því hún vissi í hvað stefndi.

„Við bjuggum um 75 kílómetra frá Kænugarði og eldri dóttir mín bjó í borginni á þeim tíma en íbúðin hennar var staðsett nærri hernaðarstofnunum sem voru meðal fyrstu skotmarkanna þetta kvöld. Ég hringdi í hana fyrr til að búa hana undir stöðuna og minna hana á hvaða skrefum hún ætti að fylgja í þessum aðstæðum,“ segir hún.

Hún hafi þó aftur á móti orðið vör við það að ekki allir væru undirbúnir, vinir dóttur hennar hafi til að mynda verið forvitnir og farið út til að kanna málin.

„Þá áttaði ég mig á því að margir, ég myndi segja flestir, voru ekki tilbúnir. Þeir gerðu sér ekki grein fyrir ástandinu sem hafði verið í landinu næstu átta ár á undan,“ segir Nataliia en fljótlega áttaði hún sig á því að þau væru ekki örugg neins staðar í Úkraínu.

Dæturnar gætu orðið skotmörk ómanneskjulega innrásarhersins

Það reyndist henni erfitt að flýja, margir aðrir voru á flótta og voru til að mynda samgöngur úr landinu mjög slæmar. Hún hafi þó þurft að gera það, ekki síst eftir hryllinginn af hálfu rússneska innrásarhersins í Bucha og Irpin.

Nataliia Tkachova flúði til Íslands frá Kænugarði en hún hafði áður þurft að flýja Luhansk hérað í Donbas sem hafði verið hersetið frá árinu 2014. Vísir/Einar

„Ég myndi ekki kalla þau skepnur því að dýr haga sér ekki svona. Ég heyrði að þau voru að myrða, nauðga og pynta fólk. Ungu dömurnar og fallegu dætur mínar yrðu möguleg skotmörk fyrir þeim og ég vildi ekki leyfa því að gerast. Ég áttaði mig á því að það væri á mína ábyrgð, líkt og það var fyrir níu árum, að flytja þær frá þessum hættulega stað,“ segir Nataliia.

Ísland varð að lokum sá öruggi staður sem þær þurftu á að halda en eiginmaður hennar varð eftir í Úkraínu.

„Hann getur ekki verið með okkur hérna, hann getur ekki verið á öruggum stað. Og það er ekki bara eiginmaður minn, móðir mín er á hersetna svæðinu og það er engin möguleiki að ná henni þaðan eins og er. Systir mín, fjölskylda hennar, frændi minn, ættingjar mínir, þau eru öll í Úkraínu,“ segir Nataliia.

Sjálf fór hún aftur til Úkraínu í fyrra til að ganga frá pappírum og hitta fjölskyldu sína en það hafi verið óhugnanlegt, þau hafi búist við að eitthvað skelfilegt myndi gerast öllum stundum. „Við getum farið þangað í smátíma en ef satt skal segja er ég hrædd við að fara þangað,“ segir hún um heimalandið.

Ísland deili sársauka Úkraínu

Hvað Ísland varðar segir hún viðtökurnar hafa verið frábærar og kann öllum þeim sem hafa lagt sitt af mörkum þakkir, sérstaklega sjálfboðaliðum. Hún segir Íslendinga mjög vinalega.

„Eitt af því sem mér fannst hvað mest áberandi var hversu tilbúið fólk var til að opna hjörtu sín og hjálpa Úkraínu sem er langt í burtu en þau segja bara að það sé nálægt. Ekki öll lönd sem deila landamærum við Úkraínu deila sársauka okkar en Ísland gerir það,“ segir Nataliia.

Hún bætir þó við að ákveðin vandamál blasi við hér á landi. Það séu húsnæðismál og atvinnumál, þar sem Úkraínumenn fá atvinnuleyfi seint og mega ekki vera sjálfstætt starfandi. Sjálf er Nataliia enskukennari og túlkur en fær ekki að starfa sem slíkur.

Að öðru leiti segir hún Ísland gefa henni tækifæri til að lifa mannsæmandi og sómasamlegu lífi. Hún segist ekki vita hvað framhaldið beri í skauti sér og hvort hún muni snúa aftur en um sinn sé Ísland hennar heimili.

„Ég elska Úkraínu en ég átta mig á því að þegar stríðinu lýkur og þegar við vinnum þá verður erfitt ástand og vandamál í mörg ár í landinu okkar. Það verður mjög erfitt að leysa þetta fljótt en ég vona og ég held að vinveittar þjóðir geti stutt okkur og hjálpað Úkraínu, því það hefur gríðarleg áhrif,“ segir Nataliia.


Tengdar fréttir

Fyrstu Hlébarðarnir komnir til Úkraínu og Selenskí heitir sigri

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, hét því í morgun að Úkraína myndi bera sigur úr býtum gegn Rússum. Þetta sagði hann í ávarpi er hann markaði það að ár er liðið frá því innrás Rússa hófst en Selenskí sagði þetta ár vera ár sársauka, sorgar, trúar og samstöðu. 

Ár eyðileggingar og hörmunga

Ár er liðið frá því Rússar hófu innrásina í Úkraínu. Á þessum degi í fyrra lýsti Vladimír Pútín, forseti Rússlands, því yfir að Rússar væru að hefja „sértæka hernaðaraðgerð í Úkraínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×