Fótbolti

Segir að Ten Hag sé eins og Ferguson upp á sitt besta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erik ten Hag hefur stimplað sig inn með látum hjá Manchester United.
Erik ten Hag hefur stimplað sig inn með látum hjá Manchester United. getty/Alex Livesey

Peter Schmeichel segir að Manchester United sé loksins búið að finna rétta eftirmann Sir Alex Ferguson, áratug eftir að Skotinn hætti sem knattspyrnustjóri liðsins.

Erik ten Hag hefur gert frábæra hluti með United eftir að hann tók við liðinu í sumar. Í gær sló United Barcelona út úr Evrópudeildinni, 4-3 samanlagt. Schmeichel var á leiknum fyrir BBC og hrósaði Ten Hag í hástert eftir hann.

„Það hefur tekið tíu ár að komast á þennan stað. Mér finnst allt geta gerst á þessu tímabili,“ sagði markvörðurinn goðsagnakenndi.

„Manchester United getur unnið allt eða ekkert en við höfum séð framþróun. Erik ten Hag hefur tekist á við allar stöður sem upp hafa komið eins og góður stjóri ætti að gera. Eins og Sir Alex Ferguson upp á sitt besta. Ég sit hér og hugsa: vá, við erum með rétta manninn.“

Ten Hag getur unnið sinn fyrsta titil sem stjóri United þegar liðið mætir Newcastle United í úrslitum deildabikarsins á sunnudaginn. United hefur ekki unnið titil í sex ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×