Fótbolti

Ó­trú­legt gengi Union Ber­lín heldur á­fram sem og Evrópu­ævin­týri Róm­verja

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Josip Juranovic og félagar eru komnir áfram.
Josip Juranovic og félagar eru komnir áfram. Ptrick Goosen/Getty Images

Sjö af átta viðureignum í umspilinu um sæti í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar er nú lokið. Bayer Leverkusen hafði betur gegn Monaco, Union Berlín sló út Ajax og Roma lagði Red Bull Salzburg.

Leverkusen fór alla leið í vítaspyrnukeppni gegn Monaco en gestirnir frá Þýskalandi unnu 3-2 sigur í kvöld eftir að Monaco vann fyrri leikinn með sömu tölum. Í vítaspyrnukeppninni reyndist Leverkusen sterkari aðilinn og er komið áfram.

Union Berlín, sem er óvænt í toppbaráttunni í Þýskalandi, unnu öruggan 3-1 sigur á Ajax eftir að fyrri leik liðanna lauk með markalausu jafntefli.

Robin Knoche kom heimamönnum yfir með marki úr vítaspyrnu og Josip Juranovic tvöfaldaði forystuna fyrir hlé. Mohammed Kudus minnkaði muninn í síðari hálfleik áður en Danilho Doekhi gerði út um leikinn og tryggði Berlínarbúum sæti í 16-liða úrslitum.

Rómverjar töpuðu fyrri leiknum í Austurríki með einu marki gegn engu og mættu nokkuð vængbrotnir inn í leik kvöldsins. Andrea Belotti, sem var að leysa meiddan Tammy Abraham af hólmi, kom Rómverjum yfir eftir rúmlega hálftíma leik. 

Paulo Dybala bætti öðru markinu við skömmu síðar og þar við sat. Rómverjar héldu út og eru komnir áfram.

Einum leik er enn ólokið en sem stendur er framlenging í leik Rennes og Shakhtar Donetsk.


Tengdar fréttir

Man United kom til baka og fór áfram

Manchester United vann 2-1 sigur á Barcelona eftir að lenda undir snemma leiks í einvígi liðanna um sæti í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Fyrri leik liðanna lauk með 2-2 jafntefli og því var allt galopið fyrir leik kvöldsins á Old Trafford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×