Erlent

ISIS-brúður tapar á­frýjun gegn sviptingu ríkis­borgara­réttar

Kjartan Kjartansson skrifar
Shamima Begum var svipt breskum ríkisborgararétti fljótlega eftir að hún fannst í fangabúðum við ISIS-liða í Sýrlandi fyrir fjórum árum.
Shamima Begum var svipt breskum ríkisborgararétti fljótlega eftir að hún fannst í fangabúðum við ISIS-liða í Sýrlandi fyrir fjórum árum. AP

Shamima Begum, ung kona sem fæddist í Bretlandi en gekk sem unglingur til liðs við Ríki íslams í Sýrlandi, tapaði áfrýjun gegn ákvörðun breskra stjórnvalda að svipta hana ríkisborgararétti í gær. Lögmaður hennar segir að baráttunni sé hvergi nærri lokið.

Begum tókst ásamt tveimur vinkonum sínum að koma sér til Sýrlands frá Bretlandi þegar hún var fimmtán ára gömul árið 2015. Þar gekk hún að eiga vígamann samtakanna. Þau eignuðust þrjú börn saman en þau létust öll ung.

Bresk stjórnvöld sviptu Begum ríkisborgararétti á grundvelli þjóðaröryggis skömmu eftir að hún fannst í fangabúðum fyrir meðlimi Ríkis íslams í Sýrlandi árið 2019. Henni er nú haldið í al-Roj-fangabúðunum í norðaustanverðu Sýrlandi. Hún er nú 23 ára gömul.

Sérstakur áfrýjunardómstól innflytjendamála hafnaði áfrýjun hennar í gær. Hún heldur því fram að breska innanríkisráðuneytið hafi ekki kannað hvort að hún væri fórnarlamb barnamansals. Dómari komst að þeirri niðurstöðu að trúverðugar grunsemdir væru um að Begum hafi verið seld mansali til Sýrlandi til kynferðislegrar misnotkunar. Það væri þó ekki nóg til þess að fella ákvörðun stjórnvalda úr gildi.

Lögmaður Begum segir að hún ætli að fara með málið lengra. Hún getur skotið málinu til áfrýjunardómstóls í London, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Harðar deilur hafa geisað í Bretlandi um mál Begum undanfarin ár. Sumir telja að hún hafi vísvitandi gengið til liðs við alræmd hryðjuverkasamtök en aðrir benda á að hún hafi verið barn að aldri þegar hún fór til Sýrlands eða að hún ætti að svara til saka í Bretlandi.


Tengdar fréttir

Segja Begum hafa rétt á að snúa aftur til Bretlands

Breskur áfrýjunardómstóll hefur komist að þeirri niðurstöðu að Shamima Begum, tvítug kona sem gekk til liðs við Íslamska ríkið fimmtán ára gömul, eigi rétt á því að snúa aftur til heimalandsins til þess að færa rök fyrir sínu máli fyrir dómstólum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×