Fótbolti

„Hefðum mátt vera að­eins ró­legri þegar við vorum komnar þangað“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari A-landsliðs kvenna í fótbolta.
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari A-landsliðs kvenna í fótbolta. Vísir/Vilhelm

„Það vantaði gæði á síðasta þriðjung. Hefðum mátt vera aðeins rólegri þegar við vorum komnar þangað,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, en liðið gerði í gærkvöld markalaust jafntefli við Wales á Pinatar-mótinu sem fram fer á Spáni.

Ísland var langt frá sínu besta í leiknum og fékk Wales þó nokkur fín færi í leiknum. Hvorugu liðinu tókst hins vegar að koma boltanum í netið og lauk leiknum með 0-0 jafntefli. Ísland því með fjögur stig eftir að hafa sigrað Skotland í fyrsta leik sínum á mótinu.

„Síðasta sendingin var svolítið að klikka hjá okkur og það vantaði ró á boltann til að við gætum verið að búa eitthvað til,“ bætti Þorsteinn við en ljóst var að hann vildi meira en aðeins jafntefli úr leik gærkvöldsins.

„Það kom kraftur í okkur og leikmenn Wales voru orðnar þreyttar þannig að ferskir fætur hjá okkur héldu tempóinu áfram í leiknum. Vorum sterkari aðilinn fannst mér í seinni hálfleik. Þetta var keimlíkt og á móti Skotum, seinni hálfleikur betri en sá fyrri heilt yfir. Virðist taka okkur 45 mínútur í síðustu tveimur leikjum að ná áttum, það er eitthvað sem við þurfum að bæta. Þokkalega ánægður með seinni hálfleikinn og vorum líklegri til að skora en náðum ekki að skapa okkur dauðafæri eða neitt svoleiðis.“

„Auðvitað tökum við eitthvað jákvætt úr þessu. Erum ekki að fá á okkur mark, höldum hreinu í báðum leikjum og þá þarf bara eitt mark til að vinna leikinn. Heldur áfram þessi gluggi og við eigum leik aftur eftir nokkra daga. Förum yfir leikinn í fyrramálið [í dag], greinum hann aðeins, sýnum leikmönnum og förum yfir þetta. Vonandi verður bæting frá leiknum í dag fram í næsta leik.“

Ísland mætir Filippseyjum á þriðjudagskvöld og getur með sigri þar farið með sigur af hólmi í Pinatar-mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×