Tottenham aftur í Meistaradeildarsæti eftir sigur í Lundúnaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Emerson Royal skoraði fyrra mark Tottenham í kvöld.
Emerson Royal skoraði fyrra mark Tottenham í kvöld. Sebastian Frej/MB Media/Getty Images

Tottenham vann nokkuð öruggan 2-0 sigur er liðið tók á móti West Ham í seinasta leik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Með sigrinum lyfti Tottenham sér aftur upp í fjórða sæti deildarinnar.

Ef frá eru taldar fyrstu mínútur leiksins voru það heimamenn í Tottenham sem voru sterkari aðilinn í leiknum og liðið ógnaði marki gestanna margoft í fyrri hálfleiknum, án þess þó að skapa sér of mörg opin marktækiræri. Því var staðan enn markalaus þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Svipaða sögu er að segja af seinni hálfleiknum þar sem heimamenn voru sterkari, en í þetta skipti tókst liðinu að skapa sér opin marktækifæri. Bakvörðurinn Emerson Royal, sem að af einhverjum ástæðum var orðinn fremsti maður Tottenham í augnablik, slapp einn í gegn eftir stungusendingu frá bakverðinum hinumegin á vellinum, Ben Davies, á 56. mínútu og kláraði færið vel fram hjá Lukasz Fabianski og staðan orðin 1-0.

Það var svo varamaðurinn Heung-Min Son sem tvöfaldaði forystu Tottenham þegar hann slapp einn í gegn eftir sendingu frá Harry Kane á 72. mínútu og niðurstaðan varð 2-0 sigur heimamanna.

Eftir sigurinn situr Tottenham í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 42 stig eftir 24 leiki, en Wet Ham situr hins vegar í 18. sæti með 20 stig, einu stigi frá öruggu sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira