Fótbolti

Sevilla valtaði yfir PSV og Juventus missti frá sér sigurinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Dusan Vlahovic skoraði eina mark Juventus í kvöld er liðið þurfti að sætta sig við jafntefli.
Dusan Vlahovic skoraði eina mark Juventus í kvöld er liðið þurfti að sætta sig við jafntefli. Stefano Guidi/Getty Images

Seinni fjórum leikjum kvöldsins í Evrópudeildarinni í fótbolta er nú lokið þar sem Sevilla vann öruggan 3-0 sigur gegn PSV Eindhoven og Juventus þurfti að sætta sig við 1-1 jafntefli gegn Nantes á heimavelli.

Youssef En-Nesyri sá um markaskorun Sevilla í fyrri hálfleik gegn PSV áður en Nemanja Gudelj og Lucas Ocampos bættu sínu markinu hvor við í síðari hálfleik. Sevilla er því í virkilega góðum málum fyrir seinni leik liðanna sem fer fram að viku liðinni í Hollandi.

Þá þurftu liðsmenn Juventus að sætta sig við 1-1 jafntefli gegn Nantes eftir að Dusan Vlahovic hafði komið liðinu yfir strax á 13. mínútu eftir stoðsendingu frá Federico Chiesa. Ludovic Blas jafnaði hins vegar metin fyrir gestina eftir um klukkutíma leik og því er allt jafnt fyrir seinni leik liðanna í Frakklandi.

Þá var dramatík í hinum tveim leikjunum þar sem miðvörðurinn Axel Disasi reyndist hetja Monaco í 3-2 útisigri gegn Bayer Leverkusen þegar hann tryggði liðinu sigur á þriðju mínútu uppbótartíma og Sebastian Coates bjargaði jafntefli fyrir Sporting þegar hann jafnaði metin í 1-1 í uppbótartíma gegn Elíasi Rafni Ólafssyni og félögum í FC Midtjylland.

Þá var einnig leikið í Sambandsdeildinni á sama tíma þar sem AEK Larnaca vann 1-0 sigur gegn SC Dnipro-1, Partizan Beograd vann 1-0 útisigur gegn FC Sheriff, Laxio vann 1-0 sigur gegn CFR Cluj og Ludogorets Razgrad vann 1-0 sigur gegn Anderlecht.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×