Innlent

Ekki bara sam­viskan sem mun stöðva bensínþyrstan almenning

Máni Snær Þorláksson skrifar
Auður Daníelsdóttir, forstjóri Orkunnar, biðlar til fólks að virða lokanir þessara stöðva.
Auður Daníelsdóttir, forstjóri Orkunnar, biðlar til fólks að virða lokanir þessara stöðva. Vísir/Vilhelm/Orkan

Tvær bensínstöðvar Orkunnar eru nú lokaðar almenningi vegna verkfallsins. Forstjóri Orkunnar segir þó að nóg eldsneyti sé til sem stendur og hvetur almenning til að halda ró sinni.

Bensínstöð Orkunnar í Skógarhlíð er nú aðeins opin fyrir neyðaraðila. Landhelgisgæsla Íslands, lögreglan, heilbrigðisstarfsfólk, slökkvilið, neyðarlínan, Rauði kross Íslands, Flugstoðir og Slysavarnafélagsið Landsbjörg geta því einungis sótt eldsneyti á þá bensínstöð.

Auður Daníelsdóttir, forstjóri Orkunnar, segir í samtali við fréttastofu að önnur bensínstöð Orkunnar, sú sem staðsett er í Fellsmúla, sé nú einnig lokuð almenningi. Sú stöð er eingöngu fyrir bílstjóra Hreyfils.

„Þeir eru eingöngu með Fellsmúla. Hún er í raun og veru bara lokuð fyrir almenningi en hún er opin fyrir bílstjóra Hreyfils,“ segir Auður.

Fyllt verður á bensínstöðvarnar í Skógarhlíð og Fellsmúla á meðan á verkfallinu stendur.

„Við erum í raun og veru að horfa til þess að almenningur virði það að þessar stöðvar eru eingöngu opnar fyrir þessa aðila,“ segir hún.

Forskrifaðir lyklar fyrir undanþáguaðila

Það verður þó ekki bara höfðað til samvisku bensínþyrstra Íslendinga því tæknin á að sjá til þess að einungis aðilar með undanþágu geti tekið bensín á þessum undanþágustöðvum.

„Við lokum dælum í framhaldinu og það verða forskrifaðir lyklar sem þessir aðilar fá. Þannig ef þú ferð í Fellsmúla til að mynda þá getur þú ekki tekið eldsneyti þar, þrátt fyrir að þú sért með Orkulykil. Við megum í raun og veru bara þjónusta þessa aðila á þessum stöðvum.“

Auður segir þá að nóg sé til af eldsneyti eins og stendur:

„Við biðlum bara til allra að virða þetta. Eins og ég segi, það er nóg eldsneyti þarna úti þannig við hvetjum landann til að halda ró sinni og fara á aðrar stöðvar. Við vinnum þetta saman.“


Tengdar fréttir

Bensínstöð Orkunnar í Skógarhlíð aðeins opin fyrir neyðaraðila

Vegna verkfalls olíubílstjóra er Orkustöðin í Skógarhlíð nú aðeins opin fyrir neyðaraðila. Skeljungur dreifir nú eldsneyti á stöð Orkunnar í Skógarhlíð í samræmi við samþykkt undanþágunefndar Eflingar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×