Manchester City vann afar sannfærandi sigur á Aston Villa í síðasta leik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.
Eftir slæmt tap gegn Tottenham og erfiða viku í kjölfar ákærumála mættu liðsmenn Manchester City tvíefldir til leiks og léku sér að gestunum í fyrri hálfleik.
Spænski miðjumaðurinn Rodri kom Man City í forystu á fjórðu mínútu og hélst staðan 1-0 allt þar til á 39.mínútu þegar Ilkay Gundogan tvöfaldaði forystuna.
Á lokamínútu fyrri hálfleiks fengu heimamenn vítaspyrnu sem Riyad Mahrez tók og skoraði. Staðan í leikhléi því 3-0.
Aston Villa náði að klóra í bakkann með marki eftir klukkutíma leik en fleiri urðu mörkin ekki og þægilegur 3-1 sigur meistaranna staðreynd.