Innlent

20.068 fengu á­vísað ADHD lyfjum og notkunin eykst enn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Drengir á unglingsaldri eru stærsti einstaki hópurinn sem fær ávísað ADHD lyfjum.
Drengir á unglingsaldri eru stærsti einstaki hópurinn sem fær ávísað ADHD lyfjum. Getty

Notkun ADHD lyfja jókst um 12,3 prósent milli ára 2021 til 2022 en fyrra árið nam hún 51 dagskammti á hverja 1.000 íbúa en 57 dagskömmtum seinna árið. Þetta er minni aukning en undanfarin ár.

Frá þessu er greint í Talnabrunni landlæknisembættisins en þar segir að árið 2022 hafi 20.680 einstaklingar fengið ávísað lyfjum við ADHD, þar af 6.807 börn og 13.873 fullorðnir. Þetta samsvarar því að 55 af hverjum 1.000 íbúum hafi fengið ávísað ADHD lyfjum.

Þetta er 11,1 prósent aukning frá fyrra ári.

„Hlutfall þeirra sem fengu ávísað slíkum lyfjum var mun hærra hjá börnum en fullorðnum eða 81 af hverjum 1.000 börnum samanborið við 47 af hverjum 1.000 fullorðnum,“ segir í Talnabrunni.

Þá segir að notkunin hafi verið mest á meðal drengja á aldrinum 15-17 ára, þar sem 181 af hverjum 1.000 drengjum fengu ávísun á adrenvirk lyf.

„Notkunin var litlu minni hjá drengjum á aldrinum 10-14 ára (177/1.000). Á meðal stúlkna er notkunin einnig mest í aldurshópnum 15-17 ára þar sem 130 af hverjum 1.000 stúlkum fengu slíku lyfi ávísað a.m.k. einu sinni 2022.“

Færist í vöxt að melatóníni sé ávísað samhliða

Í Talnabrunninum segir að talsverð breyting hafi orðið á notkunarmynstri ADHD lyfja á síðustu fjórum árum. 

Metýlfenidat er mest notaða lyfið í flokknum, eða um 67 prósent af heildarmagni, en hlutfall lisdex-amfetamíns hefur farið ört vaxandi frá 2017 og er nú um 28 prósent af heildarmagni afgreiddra lyfja.

„Aukna notkun lisdexamfetamíns má a.m.k. að hluta til rekja til þess að fyrrnefnt lyfið er á óvirku formi við inntöku og verður fyrst virkt við upptöku lyfsins úr meltingarvegi. Þessi eiginleiki lisdexamfetamíns verður til þess að erfitt er að misnota lyfið á sama hátt og metýlfenidat, sem er á virku formi við inntöku. Ennfremur benda sumar rannsóknir til þess að lyfið hafi minni aukaverkanir en metýlfenidat,“ segir í Talnabrunninum.

Notkun ADHD lyfja hefur aukist að meðaltali um 11 prósent hjá börnum og 17 prósent hjá fullorðnum frá árinu 2014.

Þá segir að á undanförnum árum hafi færst í vöxt að melatóníni sé ávísað samhliða ADHD lyfjum til að meðhöndla svefnröskun. 

„Af þeim 20.680 einstaklingum sem fengu ávísað ADHD lyfjum á árinu 2022, fengu 3.908 einstaklingar einnig ávísað melatóníni. Þetta samsvarar því að um 19% einstaklinga á ADHD lyfjum hafi einnig fengið ávísað melatóníni á árinu 2022.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.