Elvar Örn Friðriksson er framkvæmdastjóri Verndarsjóðs villtra laxastofna.
„Þessi skýrsla staðfestir náttúrulega bara það sem náttúruverndarsamtök eru búin að vera að halda fram árum saman og það er það að stjórnsýslan er háð iðnaðinum og iðnaðurinn fær að hafa eftirlit með sjálfum sér og nú þurfa bara stjórnvöld að ákveða sig; ætla þau að herða regluverk virkilega og stýra þessum iðnaði í umhverfisvænni hátt eða ætla þau að halda áfram að vera langt á eftir iðnaðinum.“
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar og nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins segir sjókvíaeldi á Íslandi fá falleinkunn í skýrslunni. Nefndarmenn stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar fengu kynningu á efni skýrslunnar í morgun og var nokkuð brugðið.
Sjá nánar: Kolsvört skýrsla um fiskeldi og metfjöldi ábendinga
Ríkisendurskoðandi sjálfur segir skýrsluna varpa ljósi á veikburða og vanmáttuga stjórnsýslu.
Skýrslan er mikil að umfangi og inniheldur metfjölda ábendinga til úrbóta sem snerta sex stofnanir.
„Þessi skýrsla er að varpa ljósi á mjög veikburða, vanmáttuga stjórnsýslu á meðan atvinnugreinin hefur verið í mjög hröðum vexti og greinilegt að það eru mörg tækifæri fyrir íslenska stjórnsýslu til að bæta sig, bæði hvað varðar laga og regluramma en ekki síst hvað varðar samstarf ráðuneyta og stofnana,“ segir Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi.
Í skýrslunni segir að samþjöppun eignarhalds, stefnulaus uppbygging og rekstur sjókvía á svæðum sem vinni gegn því að auðlindin skili hámarks ávinningi fyrir ríkissjóð hafi fest sig í sessi og það án mikillar umræðu eða atbeina stjórnvalda.
Lagaramminn hafi boðið upp á kapphlaup um eldissvæði en sjókvíaeldi við Ísland meira en tífaldaðist á tímabilinu 2014-2021. Ársframleiðsla fór úr tæpum fjögur þúsund tonnum í tæp 45 þúsund tonn.
Þá telur Ríkisendurskoðun það áhyggjuefni að Hafrannsóknarstofnun hafi ekki getað með skýrum hætti rökstutt breytingu sem var gerð 2020 á stuðlinum sem er notaður við áhættumat erfðablöndunar. Við úttektina hafi komið fram að stuðullinn væri kominn frá hagsmunaaðila úr greininni en Ríkisendurskoðun tókst þó ekki að staðfesta það með óyggjandi hætti.