Samtök atvinnulífsins telja að verkfallið standist ekki lög og að ekki megi hefja verkfallsaðgerðir fyrr en félagsfólk Eflingar hefur í atkvæðagreiðslu fellt eða samþykkt miðlunartillögu Ríkissáttasemjara. Þessu hefur forsvarsfólk Eflingar hafnað og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður félagsins, hefur látið hafa eftir sér að hún sé bjartsýn á að Efling hafi betur í báðum málum.
Ríkissáttasemjari hefur ekki enn fengið kjörskrá Eflingar afhenta svo hægt sé að greiða atkvæði um miðlunartillöguna. Það mál liggur fyrir Héraðsdómi en ekki er endilega búist við úrskurði í því máli í dag. Vonir standa þó til þess að það verði síðar í vikunni. Ef sá úrskurður fellur Ríkissáttasemjara í hag mun Efling áfrýja.
Þá stendur yfir atkvæðagreiðsla atvinnubílstjóra og starfsfólks á nokkrum öðrum hótelkeðjum um verkfallsboðun. Þeirri atkvæðagreiðslu lýkur á morgun klukkan 18:00.
Fréttin var uppfærð eftir að dagskrá Félagsdóms var breytt og úrskurðurinn í málinu settur á dagskrá klukkan 14:30.