Fótbolti

Albert lék í tapi Genoa

Smári Jökull Jónsson skrifar
Albert Guðmundsson.
Albert Guðmundsson. Vísir/Getty

Albert Guðmundsson var í byrjunarliði Genoa sem tapaði 2-0 á útivelli gegn Parma í Serie B deildinni á Ítalíu í dag. Genoa er í harðri baráttu um að tryggja sér sæti í efstu deild.

Albert kom inn í byrjunarlið Genoa í dag eftir að hafa byrjað leikinn gegn Pisa í síðustu umferð á varamannabekknum. Fyrir leikinn var Genoa í öðru sæti deildarinnar, ellefu stigum á eftir Frosinone sem situr nokkuð öruggt í efsta sæti. Parma var hins vegar um miðja deild.

Parma var sterkari aðilinn í leiknum í dag þó Genoa hafi verið meira með boltann. Á 32.mínútu kom Adrian Benedyczak Parma yfir þegar hann skoraði eftir sendingu frá Franco Vazquez.

Í upphafi síðari hálfleiks fengu heimamenn síðan dæmda vítaspyrnu sem áðurnefndur Vazquez skoraði úr. Staðan orðin 2-0 heimamönnum í vil.

Genoa náði aðeins einu skoti á rammann í leiknum og sköpuðu sér lítið af færum. Lokatölur 2-0 en Albert Guðmundsson var tekinn af velli á 78.mínútu. 

Genoa er enn í öðru sæti Serie B en tvö efstu lið deildarinnar fara beint upp í efstu deild. Reggina og Sudtirol koma í humátt á eftir þannig að það má búast við harðri baráttu um að fylgja toppliði Frosinone upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×