Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Almannavörnum.
„Appelsínugular viðvaranir Veðurstofunnar hafa verið teknar af en gular viðvaranir eru í gildi víða um land.
Samhæfingarstöð Almannavarna hefur lokið störfum en vegfarendur eru áfram beðnir að fara varlega þar sem áfram má búast við vindkviðum,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur þar fram að Veðurstofan hafi einnig aflýst óvissustigi sínu vegna snjóflóðahættu á sunnanverðum Vestfjörðum. Eins er minnt á að á umferdin.is er hægt að fylgjast með rauntímaupplýsingum um færð á vegum og að vefur Veðurstofunnar hafi að geyma allar helstu veðurupplýsingar.