Lífið

Björk seldi í­búðina í Brook­lyn fyrir 768 milljónir

Máni Snær Þorláksson skrifar
Íbúðin er afar falleg og með stórbrotnu útsýni frá veröndinni
Íbúðin er afar falleg og með stórbrotnu útsýni frá veröndinni Getty/Santiago Felipe/Douglas Elliman

Söngkonan Björk er búin að selja þakíbúðina sína í Brooklyn í New York en hún setti hana fyrst á sölu í september árið 2018. Björk vildi upphaflega fá 9 milljónir dollara, sem samsvaraði um milljarði í íslenskum krónum á þeim tíma, fyrir íbúðina.

Viðskiptablaðið greinir frá sölunni og vísar í gögn frá fasteignaskrá New York. Í gögnunum kemur fram að Björk hafi ekki fengið uppsett verð fyrir íbúðina. Kaupin fóru í gegn í lok mars í fyrra og var kaupverðið 6 milljónir dollara, það eru um 768 milljónir í íslenskum krónum ef miðað er við gengi íslensku krónunnar gagnvart dollaranum á tíma sölunnar.

Fermetrinn á 2,74 milljónir

Þakíbúðin sem um ræðir er um 280 fermetrar að stærð og fermetraverðið því um 2,74 milljónir króna Íbúðin er staðsett í fallegu húsi í góðu hverfi í Brooklyn en í henni eru fjögur svefnherbergi og jafnmörg baðherbergi. Þá fylgir stór og flott verönd íbúðinni en frá veröndinni er gott útsýni yfir Manhattan.

Björk keypti íbúðina upphaflega með fyrrverandi eiginmanni sínum, Matthew Barney, fyrir fjórar milljónir dollara. Björk keypti Barney svo út úr íbúðinni í kjölfar skilnaðar þeirra árið 2013.

Keypti Sigvaldahús í kjölfarið

Þrátt fyrir að Björk hafi ekki fengið uppsett verð fyrir þakíbúðina í Brooklyn þá var kaupverðið á henni töluvert minna en á einbýlishúsinu sem hún keypti á Íslandi í kjölfarið. Í lok árs 2021 var greint frá því að Björk væri búin að kaupa Sigvaldahúsið að Ægissíðu 80 fyrir 420 milljónir króna.

Húsið keypti hún af Guðbjörgu Sigurðardóttur kvikmyndaframleiðanda og Ottó Guðjónssyni lýtalækni. Eins og nafn hússins gefur til kynna þá var það teiknað af Sigvalda Thordarson en það var byggt árið 1958.

Húsið er nokkuð stærra en þakíbúðin í Brooklyn en það er 426 fermetrar og á þremur hæðum, með sjö svefnherbergjum, fimm baðherbergjum og útsýni til sjávar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×