Lífið

Björk kaupir Sig­valda­hús á 420 milljónir króna

Árni Sæberg skrifar
Björk Guðmundsdóttir er nýr eigandi Sigvaldahússins að Ægissíðu 80.
Björk Guðmundsdóttir er nýr eigandi Sigvaldahússins að Ægissíðu 80. Vísir/Eignamiðlun

Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins hefur tónlistarkonan Björk Guðmundsdóttir gengið frá kaupum á Sigvaldahúsinu að Ægissíðu 80. Kaupverðið sé hvorki meira né minna en  420 milljónir króna.

Vísir greindi frá því í september síðastliðnum að Guðbjörg Sigurðardóttir kvikmyndaframleiðandi og Ottó Guðjónsson lýtalæknir hafi sett Ægisíðu 80 á sölu. Nú hefur kaupandi fundist en hann er enginn annar en Björk.

Húsið, sem er teiknað af Sigvalda Thordarson og byggt 1958, er 426 fermetrar á þremur hæðum, með sjö svefnherbergjum, fimm baðherbergjum og mögnuðu sjávarútsýni.

Á síðu hússins á fasteignavef Vísis, sem nú hefur verið tekin niður, kom fram að fasteignamat hússins hafi verið 222 milljónir króna. Björk hefur því greitt tæplega 200 milljónir yfir fasteignamati fyrir slotið.

Í frétt Viðskiptablaðsins segir að kaupsamningur hafi verið gerður þann 21. október síðastliðinn og að honum hafi nú verið þinglýst. Húsið sé þar með orðið eitt það dýrasta á landinu.

Myndir af húsinu, sem er hið glæsilegasta, má sjá hér.


Tengdar fréttir

Áhugi á Sig­valda­húsinu við Ægi­síðu

Nokkur áhugi var á Sigvaldahúsi á Ægisíðu. Um er að ræða glæsilegt einbýlishúsi sem teiknað var af Sigvalda Thordarson við Ægisíðu 80 í Vesturbæ Reykjavíkur. Eignin hefur nú verið tekin út af sölusíðum en hefur ekki verið seld að sögn fasteignasala.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×