Innlent

Sema segir ríkis­lög­reglu­stjóra „ljúga upp á al­menna borgara“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sema sakar ríkislögreglustjóra um óheiðarleika og að vilja ekki axla ábyrgð á meðferð Hussein.
Sema sakar ríkislögreglustjóra um óheiðarleika og að vilja ekki axla ábyrgð á meðferð Hussein.

Sema Erla Serdar, stofnandi Solaris og baráttukona fyrir réttindum flóttafólks, sakar ríkislögreglustjóra um að ljúga opinberlega upp á almenning í svörum sínum við erindi umboðsmanns Alþingis.

Umboðsmaður hóf athugun í kjölfar brottflutnings hælisleitanda í hjólastjól, Hussein Hussein, þann 2. nóvember síðastliðinn. Leitaði hann svara hjá ríkislögreglustjóra um framkvæmdina en í gær var greint frá því að umboðsmaður hefði lokið athugun sinni, þar sem ríkislögreglustjóri segði til skoðunar að útvega lögreglu bifreið til að flytja fólk í hjólastól.

Í svari ríkislögreglustjóra segir hins vegar einnig að fyrstu áætlanir hafi gert ráð fyrir að Hussein yrði fluttur til Keflavíkur í bifreið útbúinni fyrir hjólastól. Allar áætlanir hefðu hins vegar breyst verulega vegna mótmæla og „einstaklinga sem hugðust jafnvel koma í veg fyrir brottflutninginn“.

Þá segir að fjallað verði nánar um þetta í skýrslu til dómsmálaráðuneytisins.

Reyndu aldrei að hindra störf lögreglu

„Hér er ríkislögreglustjóri að ljúga mjög alvarlegum sökum upp á almenna borgara!“ skrifar Sema á Facebook í gærkvöldi. 

Hún segist hafa verið ein af sex einstaklingum sem, ásamt fréttamanni og tökumanni frá RÚV, fundu fjölskylduna á hóteli í Hafnarfirði og tóku sér stöðu fyrir utan. Allt sem átti sér stað sé til á myndskeiðum sem fólkið tók.

„Það er auðvitað hlægilegt að ríkislögreglustjóri skuli halda því fram að lögreglan, sem taldi á tímabili fleiri en 20 lögregluþjóna, hafi ekki getað „tryggt öryggi“ Hussein og fjölskyldu fyrir mótmælendum.

Fjölskyldunni stóð allan tímann miklu meiri ógn af lögreglunni en okkur sem voru mætt til að sýna fjölskyldunni stuðning. Það stóð aldrei til að reyna að koma í veg fyrir brottvísunina og það var ALDREI reynt að hindra störf lögreglu. Við vitum það alveg að við hefðum öll verið handtekin ef svo hefði verið,“ segir Sema.

Hún segist ekki munu sitja þegjandi undir ásökunum um að eiga sök á illri meðferð lögreglu og stjórnvalda á fötluðum flóttamanni og segir málinu ekki lokið.

„Ég krefst þess að ríkislögreglustjóri dragi þessi ósannindi til baka og biðjist afsökunar á að ljúga upp á almenna borgara!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×