Fótbolti

Bönnuðu konum að mæta á leiki en ætla nú að vera styrktaraðili HM kvenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir umkringd leikmönnum Portúgals þegar þær portúgölsku gerðu út um HM-drauma íslensku stelpnanna.
Sveindís Jane Jónsdóttir umkringd leikmönnum Portúgals þegar þær portúgölsku gerðu út um HM-drauma íslensku stelpnanna. Vísir/Vilhelm

Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, ætlar að styrkja enn frekar tengsl sín við Sádi-Arabíu með því að taka Sáda inn í hóp styrktaraðila sína á komandi heimsmeistaramóti kvenna í fótbolta.

Ferðamálaráð Sádi-Arabíu mun styrkja HM kvenna sem fer fram í Ástralíu og Nýja Sjálandi í sumar.

Mörgum finnst þetta frekar hjákátlegt vegna hryllilegrar sögu landsins að kúga konur sínar.

Þekkt dæmi var þegar konur máttu ekki einu sinni fá að að mæta á fótboltaleiki.

Engu að síður mun Sádi-Arabía bætast í hóp styrktaraðila HM eins og Adidas, Coca-Cola og Visa.

32 þjóðir keppa á HM 2023 og fyrsti leikurinn fer fram á Eden Park í Auckland borg á Nýja Sjáland fyrir framan fimmtíu þúsund manns.

Konur í Sádi-Arabíu hafa öðlast mun fleiri réttindi á síðustu árum eins og að mega keyra bíla og mæta á fótboltaleiki. Þær mega líka loksins sækja um vegabréf og ferðast sjálfar án þess að vera alltaf í fylgd karlkyns forráðamanns.

Það eru samt margar hömlur á sjálfsögðum mannréttindum kvenna í landinu. Þær þurfa þannig að fá leyfi til að giftast eða leita ákveðnar læknishjálpar. Karlmenn geta líka leitað réttar síns ef konur hlýða þeim ekki eða skila sér ekki heim á vissum tíma.

Fyrsta kvennadeildin í fótbolta var stofnuð í Sádi-Arabíu árið 2020 og kvennalandslið Sádi-Arabíu vann fjögurra þjóða mót á dögunum sem skilaði landsliði þjóðarinnar sæti á FIFA-listanum í fyrsta sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×