Fótbolti

Trippier framlengir við Newcastle

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Hefur átt stóran þátt í skjótum uppgangi Newcastle.
Hefur átt stóran þátt í skjótum uppgangi Newcastle. vísir/getty

Enski knattspyrnumaðurinn Kieran Trippier hefur verið einn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á tímabilinu.

Hann framlengdi í dag samning sinn við Newcastle United til ársins 2025 en Trippier gekk í raðir félagsins frá Atletico Madrid fyrir rétt rúmu ári síðan og var fyrsta stóra nafnið til að ganga til liðs við félagið eftir að það varð nýríkt í kjölfar yfirtöku Sádi-Araba á félaginu í lok árs 2021.

Þegar Trippier gekk til liðs við Newcastle var liðið í næstneðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar en allt annað er upp á teningnum í dag þar sem liðið situr í 3.sæti deildarinnar og stefnir hraðbyri á að komast í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Trippier er 33 ára gamall og hefur leikið 40 landsleiki fyrir A-landslið Englands. Eftir að hafa farið í gegnum unglingastarf Manchester City hefur hann leikið fyrir Burnley og Tottenham, auk Atletico Madrid og Newcastle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×