Innlent

For­seti bæjar­stjórnar á Akur­eyri á­kærður vegna hoppu­kastala­slyssins

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Málið verður þingfest hinn 9. febrúar næstkomandi.
Málið verður þingfest hinn 9. febrúar næstkomandi. Vísir/Lillý

Heimir Örn Árnason, forseti bæjarstjórnar á Akureyri, er meðal fimm ákærðra í máli vegna slyss í hoppukastala á Akureyri fyrir einu og hálfu ári síðan. Sakborningarnir eru taldir hafa sýnt af sér aðgæsluleysi og vanrækslu.

RÚV greinir frá.

Það var þann 1. júlí í fyrra sem risastór hoppukastali, sem komið hafði verið fyrir við Skautahöllina á Akureyri, tókst á loft. 63 börn voru inni í kastalanum þegar atvikið varð.

Fimmmenningarnir eru sagðir hafa borið ábyrgð á öryggi barnanna sem voru að leik í hoppukastalanum með einum eða öðrum hætti. RÚV greinir frá því að saksóknari hafi höfðað málið vegna fjögurra barna sem slösuðust. Tvö börn handleggsbrotnuðu og eitt barn hlaut brot á herðablaði í slysinu.

Eitt barnanna, Klara, slasaðist alvarlega. Hún varð fyrir miklum heilaáverka sem gerði það að verkum að hún þarf að læra flest, ef ekki allt, upp á nýtt.

Saksóknari hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra hefur verið með málið til meðferðar síðustu mánuði. Ákærusvið lögreglunnar hefur nú talið tilefni til að gefa út ákæru. 

Að sögn RÚV segir í ákærunni að jarðfestingar hafi verið allt of fáar til að halda svo stórum kastala tryggilega. Ekki hafi verið fylgst nægilega vel með festingum og einingar sem fastar voru saman, hafi aðeins verið festar með frönskum rennilás og spottum.

Hoppukastalinn var á vegum Perlunnar og hafði verið tímabundið fluttur norður í land. Gunnar Gunnarsson forstjóri Perlunnar sagðist í samtali við fréttastofu vera gjörsamlega miður sín vegna atviksins í 1. júlí 2021. Þá sagði hann alveg kýrskýrt að ef vindur færi yfir 10 metra á sekúndu væri kastalinn ekki blásinn upp. Festingar kastalans ættu þó að ráða við miklu meira en slíkan vindhraða.

Daginn sem slysið bar að voru um sex til ellefu metrar á sekúndu á Akureyri, samkvæmt veðurathugunum Veðurstofunnar.

Aðspurður hver hafi borið ábyrgð á vettvangi, tekið ákvörðun um hvort loka eigi vegna vinds, vildi Gunnar þá hvorki benda á einn né neinn: „Þetta er mín ákvörðun „at the end of the day,“ sagði Gunnar. „Ég ber ábyrgð á því sem er að gerast þarna.“


Tengdar fréttir

Foreldrar íhuga að leita réttar síns vegna hoppukastalaslyss

Foreldrar barna sem slösuðust í hoppukastala á Akureyri síðasta fimmtudag íhuga að leita réttar síns og fara fram á skaðabætur, samkvæmt heimildum fréttastofu. Sjötíu börn voru í kastalanum þegar hann tókst á loft. Þar af var eitt þeirra flutt með sjúkraflugi til Reykjavíkur og sex send til aðhlynningar á sjúkrahús á Akyreyri. Eitt barn slasaðist alvarlega og er haldið sofandi á sjúkrahúsi. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×